144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

422. mál
[23:54]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé rétt að ekki sé komin endanleg reynsla á fyrirkomulagið. Það mun án efa hjálpa til við að deildaskipta, þ.e. að unnið verði í mismunandi deildum sem sinna mismunandi málaflokkum þar sem þeir sem þurfa hraðari afgreiðslu, flýtiafgreiðslu, stöðvun framkvæmda og slíkt, gætu fengið afgreiðslu strax. Það mun líka hjálpa til þegar úrskurðir birtast að þeir munu hafa fordæmisgefandi gildi þannig að menn geti þá lært af því að ekki þurfi að kæra mál ef búið er að gera það áður. Þá getur nefndin kannski farið að vísa til fyrri úrskurða og vísað þá málum frá fyrr í staðinn fyrir að láta þau bara liggja í bunkanum. Það er hluti af breyttu verklagi.

Það er án efa rétt að við gætum nýtt tölfræði til að hjálpa okkur við að bæta lagarammann. Eitt af því sem menn hafa bent er á að kæruleiðir séu of margar, menn geta keyrt sömu framkvæmdina, sama atburðinn á of mörgum stigum án þess að það breyti nokkru. Það hefur sannarlega tafið fyrir og eru nokkur slík mál sem taka þarf fyrir. Svo má að lokum nefna málafjöldinn segir auðvitað ekki allt. Sum mál eru gríðarlega stór og flókin og taka mikinn tíma á meðan önnur eru í sjálfu sér einföld. Með breyttu verklagi þar sem mál eru flokkuð og sett til mismunandi deilda gæti maður séð fyrir sér að einfaldari mál væru afgreidd hraðar og hin fengju kannski meiri tíma en þá líka skýrari ramma í verklaginu þannig að menn vissu hvenær þeim lyki. Það er mikilvægt að við viðhöldum þeim lagaramma því að það er fjöldinn allur af dæmum núna síðustu ár þar sem mál hafa hreinlega stoppað þarna inni í tvö til þrjú ár og þá hafa framkvæmdir þar af leiðandi stöðvast. Það er algerlega óbærilegt fyrir allt og alla og ekki síst stjórnsýsluna að horfa upp á það þó að það sé auðvitað verst fyrir þá sem lenda í því að verða stöðvaðir vegna slíkra atburða.