144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

störf þingsins.

[10:39]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Það kom fram við fjárlagaumræðuna að væntanlega og vonandi fyrir mistök hefði fallið niður fjárveiting upp á 50 milljónir til Útlendingastofnunar þannig að hún gæti staðið betur að þeim miklu verkum sem hún hefur verið að vinna. Ég vona sannarlega að það hafi verið mistök og þau verði leiðrétt fyrir 3. umr.

Virðulegi forseti. Mig langar að vekja athygli á öðru sem varðar það fólk sem flyst hingað til lands og vill búa hér með okkur í kulda og trekki eins og er í dag. Það er vandamál þessa fólks við að fá vinnu. Fram kemur í miklum greinabálki sem hefur verið að birtast undanfarna daga í Fréttablaðinu að fólk telur að það fái síður vinnu ef það kemur fram að það hefur útlent nafn. Það fær ekki vinnu við sitt hæfi, ekki í samræmi við menntun sína. Það kemur fram í einni greininni að kona, hagfræðingur frá Litháen, sótti um 200 störf en fékk ekki starf við sitt hæfi. Dýralæknir vinnur ekki við sitt fag og svo má lengi telja. Ég held ekki að ég hafi einhverja patentlausn á þessu, alls ekki, en ég held að við þurfum öll að íhuga þetta og hugsa hvað við getum gert til að þetta lagist. Það er ekki nóg að segja: Það er ekki bara á Íslandi sem þetta er erfitt, þetta er alls staðar erfitt. Þetta er virkilega eitthvað sem við þurfum öll að hugsa um og athuga hvernig við getum bætt úr þannig að fólk sem flyst hingað til lands njóti sömu réttinda og við hin sem búum hér.