144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

störf þingsins.

[10:41]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Mig langaði aðeins til að ræða um fjárlagafrumvarpið. Kannski eru allir búnir að fá nóg af því eftir atkvæðagreiðsluna í gær en mér finnst svo athyglisvert hvað okkur tekst illa að gera langtímaplön og hvað allt of margar stofnanir vita ekki hvað þær eru með í fjárframlög á næsta ári.

Eins og ég skil það er markmiðið með nýjum lögum um opinber fjármál að reyna aðeins að horfa lengra fram í tímann og hafa þetta fastar í hendi. Ég velti fyrir mér þeim tíma og þeirri sóun, tíma forstjóra margra stofnana sem eyða ótrúlegu púðri í einhverja hagsmunabaráttu, reyna að tryggja fjármagn næsta ár, koma í veg fyrir niðurskurð, þegar þeir ættu í raun bara að vera að sinna sínum stofnunum. RÚV er dæmi, ég get tekið Háskólann á Akureyri sem dæmi um stofnanir sem hafa verið í umræðunni og mér finnst þetta ekki gott. Það er til mikils að vinna að við reynum að horfa lengra fram í tímann. Þetta á líka við um mörg félagasamtök sem berjast á hverju ári við að fá einhver fjárframlög, sækja um á safnliði og vita ekki fyrr en kannski um áramót hvort þeir fái einhvern styrk og hversu mikið þá.

Ef stjórnvöld telja að einhver félagasamtök séu að sinna mikilvægu hlutverki á að sjálfsögðu að gera þjónustusamning kannski í þrjú ár, þriggja ára þjónustusamningar. Ég kalla eftir því að við færum okkur í þessa átt alveg óháð því hvort og hvenær við samþykkjum lögin um opinber fjármál. Við eigum alveg að geta unnið í þeirra anda þótt lögin séu ekki komin í gegnum þingið.