144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

störf þingsins.

[10:53]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Mig langar að vekja athygli á verkefninu Ég er Unik. Um er að ræða verkefni sem hefur þann tilgang að útbúa fræðsluefni fyrir einhverfa einstaklinga og auka skilning í samfélaginu á hvað einhverfa er og hvernig hún getur birst í mörgum og mismunandi myndum hjá hverjum og einum. Verkefnið mun bjóða upp á þann möguleika að búa til einstaklingsmiðað fræðsluefni sem einhverfir einstaklingar og aðstandendur þeirra geta sett saman á vefsíðunni Ég er Unik. Þeim upplýsingum sem settar eru saman og eiga við um viðkomandi einstakling er til dæmis komið fyrir í lítilli bók sem hægt er að dreifa til skóla, vinnufélaga, ættingja og vina svo eitthvað sé nefnt. Ég tel að þetta verkefni geti verið til mikilla bóta fyrir einhverfa einstaklinga og aðstandendur þeirra. Það vantar mikinn skilning í samfélaginu á því hvernig einhverfa birtist hjá einstaklingum. Það getur tekið mikið á einhverfa einstaklinginn og aðstandendur að þurfa stöðugt að útskýra aftur og aftur hvernig hún birtist. Að geta afhent litla bók eða dreift upplýsingum getur minnkað álagið á einstaklinginn og fjölskylduna. Áreiti á einhverfa einstaklinginn getur jafnframt minnkað og mjög líklegt er að það hafi jákvæð áhrif á líðan einstaklingsins en það er það sem skiptir öllu máli í þessu samhengi.

Einhverfurófið er mjög misjafnt og einkennin geta verið væg upp í það að vera mjög áberandi og geta haft mjög mikil áhrif á líf viðkomandi. Þeir sem hafa áhuga á þessu verkefni geta farið inn á síðuna Ég er Unik og kynnt sér málið ögn betur. Ef verkefnið nær fram að ganga og gengur vel mun það jafnframt ná til annarra hópa, einstaklinga sem eru með aðrar fatlanir og gagnast þeim vel.