144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

störf þingsins.

[10:55]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég kom hér upp fyrir tveimur eða þremur dögum (Gripið fram í.) síðan og benti á rangfærslur í frétt Ríkisútvarpsins um umfjöllun um fjárhagsleg málefni hins opinbera hlutafélags. Í grein sem ég birti í Morgunblaðinu á þriðjudag sagðist ég bíða og vona að fréttastofa Ríkisútvarpsins leiðrétti frétt sína frá síðastliðnum föstudegi með áberandi hætti.

Virðulegi forseti. Mér finnst þess vegna rétt núna að koma og hrósa fréttastofu Ríkisútvarpsins fyrir að hafa gert það, það gerði fréttastofa Ríkisútvarpsins í fréttum sínum í gær, hún leiðrétti fréttina frá því á föstudag og er það vel.

Það verður að segjast, virðulegi forseti, að hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir og Ingvi Hrafn Óskarsson, stjórnarformaður RÚV, eru frekar óheppið fólk að koma síðan daginn eftir að leiðréttingin kemur og heimta það væntanlega að ég leiðrétti leiðréttingu RÚV. Ég ætla ekki að gera það enda engin ástæða til.

Af þessu tilefni verð ég að nefna, af því að hér eru uppi stór orð í minn garð og jafnvel talið að ég fari með rangfærslur, að aldrei er komið með neina efnislega gagnrýni á það sem ég segi. Ég vitna í ríkisreikning sem er uppáskrifaður af Ríkisendurskoðun og þegar ríkisreikningur er ekki til staðar vísa ég í fjárlögin. Betri gögn hef ég ekki. Ef einhver hefur upplýsingar um að þetta sé rangt þá er mjög mikilvægt að það komi fram. Deilan stendur um það, af því að verið er að tala um niðurskurð, að núverandi ríkisstjórn hefur hækkað framlagið á hverju ári um 485 millj. kr. Hækka, það er ekki niðurskurður. Þetta er 15% hækkun og mun meira en margar stofnanir fá og fer eðli málsins samkvæmt út úr öðrum þáttum eins og heilbrigðismálum og öðru.

Krafa stjórnarandstöðunnar er að við hækkum framlagið, ekki um 485 millj. kr., heldur 1 þús. millj. kr. og hækkum skatta (Forseti hringir.) á fólk, almenning í landinu, hækkum nefskatta (Forseti hringir.) umfram það sem er í fjárlagafrumvarpinu, (Forseti hringir.) svo menn séu algjörlega meðvitaðir (Forseti hringir.) um hvað deilan snýst.