144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

störf þingsins.

[10:57]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Ein vörutegund sem seld er á Íslandi virðist ekki lúta venjulegum markaðslögmálum, þ.e. eldsneyti. Það eru fimm dreifingaraðilar á eldsneyti á Íslandi. Ef við keyrum hér horna á milli í Reykjavík eða horna á milli á landinu getum við átt von á því að fá mismunandi verð, allt frá 10 aurum til 30 aura á lítrann. Þannig er sú samkeppni. Að vísu eru bjartari tímar fram undan því að ég hef heyrt að íslenska karlalandsliðið í handbolta hafi náð inn á heimsmeistaramót, og hafi þeim hingað til gengið vel höfum við venjulega fengið dálítið skarpa lækkun daginn eftir. Við eigum líka von á því að taka þátt í Eurovision þannig að þá eigum við væntanlega von á einhverri skarpri lækkun, og þau okkar sem lifa næsta afmæli geta líka átt von á einhverjum krónum, ef við lifum það.

En að þessu slepptu er það svo að síðan í janúar í fyrra hefur heimsmarkaðsverð á dísilolíu og bensíni lækkað um 33%. Á sama tíma hefur veruleg styrking orðið á gengi íslensku krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum og maður skyldi ætla að nú gæti maður farið hlakkandi á næstu dælustöð. En verðlækkun á eldsneyti á Íslandi á þessum sama tíma nemur í kringum 10,7%. Ef maður vill vera heiðarlegur, vegna þess að stór hluti af eldsneytisverði á Íslandi er náttúrlega skattur sem fer í ríkissjóð, og væntir þess ekki að fá alla heimsmarkaðslækkunina í vasa neytenda þá lítur það samt þannig út samkvæmt útreikningum FÍB að íslensku olíufélögin séu núna með um það bil 6 kr. meiri álagningu á lítra en þau voru með í janúar í fyrra. Og hver króna í eldsneytisverði á Íslandi kostar íslenskar fjölskyldur 360 millj. kr., þannig að þessar 6 kr. sem hægt væri að skila í eldsneytisverði kosta íslensk heimili í kringum 2 milljarða kr. á ári. Ég held því að nú sé tækifæri á aðventunni (Forseti hringir.) fyrir stjórnendur olíufélaganna, sem sitja á ofurlaunum í boði (Forseti hringir.) lífeyrissjóðanna á Íslandi, að færa Íslendingum (Forseti hringir.) smá jólaglaðning með lækkun á eldsneyti.