144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

störf þingsins.

[11:04]
Horfa

Sigrún Magnúsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Löng var atkvæðagreiðslan í gær en hún var undir traustri stjórn forseta og gekk vel, enda voru margar breytingartillögur sem fjárlagafólkið gerði á frumvarpinu, bæði meiri og minni hluti. Flest var það samkvæmt bókinni, að minni hluti yfirbjóði tillögur meiri hluta, kunnuglegt stef.

Ég hef hugleitt það talsvert á haustdögum núna hvort við græðum eitthvað á því að flýta framlagningu tekjuhliðar fjárlaga á haustin. Aldrei hefur frumvarp fengið opnari og lengri meðferð, sérstaklega tekjuhlið þess. Áður fyrr kom svokallaður bandormur fram um mánaðamót nóvember/desember eða þremur mánuðum seinna en í ár. Þá var milli stjórnmálaflokka tekist á um tekjur til að mæta útgjaldahliðinni en það olli ekki uppnámi hjá hinum almenna manni eða stofnunum. Við vorum öll hress hér að koma þessu fram strax í byrjun september en, eins og ég segi, ég ígrunda þetta fyrirkomulag eigi að síður. Ég deili þeirri von með þingmönnum að með framlagningu opinberra fjárlaga á vorin fari ferli fjárlaga í fastmótaðra form og gangi þar með betur. Nefndafólki í fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd vil ég færa þakkir fyrir frábær störf.

Margt var hér bætt og lagað og forgangsröðun var skýr hjá meiri hlutanum til heilbrigðismála, menntamála og til leiðréttingar á skuldastöðu heimilanna. Rannsóknir, vísindi og skapandi greinar voru settar í forgang og margt annað var eflt. Við bættum við til hjúkrunarheimila og í Landspítalann settum við 2,5 milljarða, sem eru 2.500 milljónir. Það var sett í hönnun, tæki og rekstur.

Mig langar aðeins út af ummælum hv. þm. Helga Hjörvars að segja að ég nota mjög sjaldan orðin „að nenna ekki“. Ég held að þau séu yfirleitt (Forseti hringir.) ekki til í minni orðabók en þessi orðaskipti áttu sér stað (Forseti hringir.) á hlaupum hér úti á Austurvelli, það er rétt. (Forseti hringir.) Við höfum ætíð, framsóknarmenn, (Forseti hringir.) stutt Ríkisútvarpið, ætíð. Það hefur verið okkur varða á leið.

En ég spyr sem gamall kaupmaður: Þarf ekki líka að hugsa um það ef eitthvað er að vörunni? Er hún á réttum stað, rétt merkt eða er eitthvað að umbúðunum?