144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

um fundarstjórn.

[11:08]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Þetta er algjörlega rangt sem hv. þingmaður var að halda hér fram. (Gripið fram í.) Hv. þingmaður á að hlusta á það sem ég er að segja. Hv. þingmaður fer með rangt mál þegar hann heldur því fram að einungis hafi komist 12 að í þessari umræðu áðan. Það töluðu hér 15 þingmenn eins og alltaf í þessari umræðu. Ræðutíminn er skammtaður í 30 mínútur og við göngum út frá því að hér geti þá 15 hv. þingmenn talað og það var þannig í þetta skipti. Það er alsiða síðan þegar það gerist, sem betur fer gerist ákaflega sjaldan, að þegar einstakir hv. þingmenn verða fyrir mikilli truflun, t.d. vegna frammíkalla, þá gefur forseti fáeinar sekúndur til viðbótar. Í tilviki hæstv. fjármálaráðherra er ekki ólíklegt að það hafi verið fimm, sex sekúndur eða þar um bil sem hæstv. ráðherra fékk til viðbótar.

Hins vegar er það þannig að það eru ýmis dæmi um það að hv. þingmenn taka sér aukalegan tíma og tali umfram þann ræðutíma sem þeim er ætlaður. Forseti hefur reynt að sýna því nokkra biðlund, en engu að síður reynir forseti að bregðast við með því að berja í bjölluna en því er misjafnlega tekið og hv. þingmenn bregðast misjafnlega við því.

Til máls tekur um fundarstjórn forseta og til þess væntanlega að leiðrétta ranghermi sitt, hv. 10. þm. Reykjav. s. Jón Þór Ólafsson.