144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[12:06]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, vörugjald o.fl. Þetta er búin að vera mjög löng og mikil umræða, málefnaleg á köflum en dálítið mikið um endurtekningar. Ég hef fylgst dálítið með umræðunni og maður fær aftur og aftur sömu hugsanirnar sem leiðir kannski af langri umræðu.

Meginbreytingarnar í þessu frumvarpi eru mér mjög að skapi, þ.e. afnám vörugjalds sem er mér afskaplega mikið að skapi. Efra þrep virðisaukaskatts fer úr 25,5% niður í 24% og er mér líka að skapi vegna þess að þetta er skattalækkun. Ég tel að efra þrepið, sem er nú heimsmet að mér skilst, sé komið yfir þau mörk sem gefur ríkissjóði meiri tekjur samkvæmt hinni svokölluðu Laffer-kúrfu. Sérhver hækkun á skattinum mundi bara minnka skattstofninn, umsvifin mundu minnka og ríkissjóður tapa. Lækkun á honum kann því að valda aukinni veltu og auknum tekjum ríkissjóðs.

Svo er það matarskatturinn frægi sem er reyndar á eitthvað meira en mat en að meginhluta samt mat. Það stóð til að hækka hann úr 7% í 12%, þá með þeirri hugsun að minnka bilið á milli þrepanna. Í meðförum nefndarinnar hefur talað lækkað niður í 11%. Ég er ekkert voðalega kátur með það en fellst á það með semingi. Bilið á milli þrepanna er það sem gefur fólki tækifæri til að svindla á kerfinu. Það kemur upp fyrirbæri þar sem menn selja vörur sem eru enn með 7% skatti en innskatturinn sem þeir fá getur verið 25,5%. Þó að virðisauki hafi orðið á vörunni í framleiðslunni geta þeir engu að síður fengið endurgreitt frá ríkissjóði vegna þess að útskatturinn er lægri í prósentum en innskatturinn. Það er þetta sem er svo hættulegt, fyrir utan það sem menn geta hringlað til með vörur. Menn eru kannski að selja pakka, t.d. ferð til Íslands, og í honum eru hundasleðar sem eru skattfrjálsir, matur sem er með 25,5% skatti, gisting sem er með 7% skatti o.s.frv. Hvert er þá endaverðið? Sá sem selur setur náttúrlega mesta kostnaðinn á hundasleðann, það er 100 þúsundkall, maturinn verður mjög ódýr af því að hann er með hæsta virðisaukaskattinn og gistingin verður frekar ódýr líka vegna þess að hún er með skatt yfirleitt. Verðsamsetningin verður mjög undarleg en ekkert ólöglegt við það. Það er enginn sem segir að maturinn kosti ekki 500-kall. Það er þetta sem er svo hættulegt.

Gleðitíðindin eru afnám vörugjalds. Ég átti ekki von á að ég mundi lifa það að það yrði afnumið vegna þess að alltaf þegar átti að fara að lækka eða minnka vörugjaldið var sagt að þetta væri svo flókið að menn sæju ekki afleiðingarnar. Vissulega er þetta afskaplega flókinn, órökréttur og vitlaus skattur. Vörugjald á helstu heimilistækjum er 15% á vöskum, baðkerum og öllu sem er inni á baðherbergi. Þær vörur munu lækka út af þessu um 13% vegna niðurfellingar vörugjalds. Svo kemur lækkun á efra þrepi virðisaukaskattsins líka til viðbótar sem er 1,2%. Það verður 14–15% lækkun á öllu því sem er á baðherberginu.

Rafmagnstæki eins og ísskápar, eldavélar, frystar, bakarofnar, allt sem er inni í eldhúsi má segja, eru með 20% vörugjaldi í dag. Það mun lækka um 17% plús 1,2% lækkun á virðisaukaskattinum í efra þrepinu. Það verður 18–19% lækkun og munar aldeilis um það. Það merkilega er, herra forseti, er að þetta er byrjað að lækka. Fyrirtækin sjá að það þýðir ekkert að selja vörur í desember sem munu lækka í janúar. Menn hafa talað um að skattalækkanirnar virki hægt en það gerist heldur betur hratt hérna því að það gerist áður en frumvarpið er orðið að lögum.

Síðan er allt það sem er inni í stofu, aðallega sjónvarpið og flatskjárinn og það sem menn hafa talað um með lítilsvirðingu eins og enginn kaupi það. Það er víst eitthvert ríkimannadæmi, en flest heimili hafa samt sjónvarp og þar er virðisaukaskatturinn núna 25%. Hann mun lækka um 20% plús svo lækkunina út af efra þrepi virðisaukaskattsins, 1,2%. Það verður þá um 21% lækkun á þeim vörum. Það munar heldur betur um það.

Þessi langa umræða hérna er eins og enginn kaupi þetta, ekki eitt einasta heimili, en ég hef ekki komið inn á eitt einasta heimili þar sem ekki er ísskápur. Það virðist sem enginn hafi keypt þetta, enginn muni kaupa þetta og heimilin muni ekkert um þetta en samt á ríkissjóður að tapa umtalsverðum fjárhæðum á því að fella niður vörugjaldið. Umræðan er dálítið skrýtin. Svo hafa menn sagst kaupa bara á bland.is eins og kom fram áðan í ræðu. Auðvitað lækka þær vörur líka. Láta menn sér detta í hug að notaðar vörur lækki ekki þegar nýjar vörur lækka? Að sjálfsögðu lækka þær líka um leið. Menn fara ekki að selja notaðar vörur á hærra verði en nýjar. Það er viðbúið að lækkunin þar verði líka 10–15% fyrir þá sem þurfa að kaupa notaðar vörur. Lækkun vörugjaldsins er afskaplega jákvæð.

Hækkun matarskattsins úr 7% í 12% sem hefur verið aðalumræðuefnið í þessari löngu umræðu, úr 7% í 11% sem reyndar varð niðurstaðan, þýðir 3,7% hækkun. Það eru öll ósköpin. Ef menn kaupa fyrir 10 þúsundkall eru það 370 kr. sem sú karfa hækkar. Það getur vel verið að einhvern sem er að kaupa fyrir 10 þúsundkall muni ógurlega mikið um 370-kall en ég hygg ekki.

Nefndin reyndi mikið að komast að því hvernig þetta kemur niður á ýmsum þjóðfélagshópum af því að umræðan snýst mikið um að það sé margt fátækt fólk sem eigi erfitt með að kaupa þessar vörur af því að menn verði að kaupa mat og komist ekki hjá því. Ég get ekki séð annað en að menn verði líka að hafa húsnæði á Íslandi, a.m.k. eins og veðrið hefur verið undanfarið. Það er ekki síður mikilvægt að hafa húsnæði og það lækkar líka í verði við þessar breytingar um 1,1%, allt húsnæði, aðallega út af lækkun efra þreps virðisaukaskattsins. Nefndin reyndi mikið að finna út úr því hvar fátæka fólkið væri. Það er ekkert auðvelt. Það er nefnilega þannig að 12 þús. manns, námsmenn, fá 16 milljarða lánaða fyrir framfærslu. 7–8% þjóðarinnar fá lánað fyrir framfærslunni en það kemur ekki fram á skattframtölum eða í könnunum Hagstofunnar. Ég er búinn að biðja Hagstofuna um að taka lán frá lánasjóðnum sem framfærslu en ég veit ekki hvernig þeirri vinnu miðar. Ég er búinn að biðja hana um taka það inn þannig að menn geti fundið út hina raunverulegu stöðu.

Töluvert mikið hefur verið talað um fátækt, sérstaklega fátækt barna, og það er mikilvægt að við finnum þann hóp sem þar um ræðir og getum lagað stöðu hans. Það gerum við ekki þegar tölfræðin er svona röng.

Menn hafa rætt nokkuð um laxveiði. Ég hef svo sem talað mörgum sinnum um það í gegnum tíðina, mér hefur alltaf þótt óeðlilegt að laxveiði sé ekki með virðisaukaskatti, en þá hefur mér verið bent á að þetta sé leiga, (Gripið fram í.) laxveiði sé leiga á ánni og leiga sé undanþegin. AGS hefur lagt til að Íslendingar breyti því og geri leigu virðisaukaskattsskylda og ef ég mögulega get mun ég vinna að því í nefndinni að leiga verði virðisaukaskattsskyld, þ.e. leiga utan íbúðarhúsnæðis. Ekki ætla ég að fara að auka á vandræði leigjenda eins og þau eru í dag með því að setja þá leigu í virðisaukaskattskerfið. Það er hins vegar sjálfsagt að setja virðisaukaskatt á atvinnuhúsnæði, lönd, leigulóðir og annað slíkt og þá mun laxveiðin væntanlega borga virðisaukaskatt en hafa innskatt á móti. Þá getur hún dregið frá skatt sem hún greiðir.

Þetta tel ég framtíðarverkefni. Ég er búinn að bera það upp í hv. efnahags- og viðskiptanefnd þar sem ég á sæti að menn vinni eftir áramót dálítið hratt í því að breyta virðisaukaskattskerfinu, halda áfram þeirri vinnu sem er hafin og einfalda kerfið vegna þess að íslenska virðisaukaskattskerfið er alls ekki nógu skilvirkt. Það sýnir samanburður við erlend kerfi. Það er of götótt. Við verðum að vinna að því að gera það heilsteyptara og samfelldara. Þær breytingar sem hér er unnið að eru stór þáttur í því.

Að lokum ætla ég að tala um sykur sem er mikið áhugamál margra. Sumir segja að sykur sé ekki matur og sumir tala um sykur nánast sem eitur. Hann er örugglega ekkert voðalega hollur. Ég reyni sjálfur að forðast sykur eins og ég get en hef efasemdir um það þegar þingmenn fara að hafa vit fyrir fólki og segja: Heyrðu, þú átt ekki að borða sykur en af því að þú ert svo vitlaus að þú ætlar að halda áfram að borða sykur hækka ég bara verðið á sykrinum upp úr öllu valdi. Þetta hefur bara ekki gefist vel. Þetta var gert, það var settur á sérstakur sykurskattur og sykurneyslan breyttist ekkert voðalega mikið, því miður.

Ég held að þá væri miklu betra að fara yfir í upplýsingar um skaðsemi sykurs eins og var gert með tóbak. Það hefur tekist alveg ágætlega að minnka tóbaksreykingar, sérstaklega hjá ungu fólki, með því að vera með kynningu og upplýsingar um það hvað viðkomandi vara er skaðleg. Það ættum við að gera miklu frekar en að nota skattkerfið til að þvinga menn til þess að borða ekki sykur sem þeir vita ekki sjálfir að er skaðlegur. Það er miklu betra að menn viti að sykurinn sé skaðlegur. Við, hv. þingmenn, eigum ekkert að vera að stýra fólki með því að láta það hætta að borða eitthvað sem það vill borða. Við getum alveg eins snúið okkur að fitu, smjöri, rjóma o.s.frv. Við getum sagt að það sé óhollt og að við ætlum að hækka skatt á það upp úr öllu valdi til að menn hætti að borða fitu, feitt kjöt eða eitthvað slíkt. Ég held að einstaklingurinn eigi bara að ráða því hvað hann borðar.

Hv. þingmenn, sérstaklega þeir sem eru yngri, eiga ekki að vera að segja eldra fólki fyrir verkum, að þrítugur eða fertugur þingmaður segi við konu sem er orðin 65 ára: Heyrðu, þú skalt ekki nota sykur út í kaffið þitt og þú skalt ekki borða fitu. Ég ætla að hækka verð á sykri svo mikið að þú hafir ekki efni á honum eða hækka verð á fitu svo mikið að þú hafir ekki efni á því að fá þér smjör ofan á brauð.

Mér finnst miklu betra að upplýsa fólk um gildi matar. Það er einmitt heilmikið starf unnið í því að upplýsa fólk um gildi næringar, hvað er hollt og hvað ekki. Ég er á móti því að stýra neyslu fólks með sköttum og held að það gefi hvorki mikla né góða raun.

Í heild sinni held ég að þetta sé gott frumvarp. Eins og ég sagði áðan er ég dálítið dapur yfir því að menn hafi ekki haldið sig við 12% vegna þess að það munar ekkert voðalega miklu, það munar 1% á því hvort það er 11% eða 12% hversu mikið varan hækkar. Möguleikar til undanskota hefðu minnkað en síðan þarf náttúrlega að vinna áfram að þessu. Vilji nefndarinnar og ráðuneytisins kom fram í því að menn vilja halda áfram að gera íslenska virðisaukaskattskerfið skilvirkara og betra þannig að það skili ríkissjóði betri tekjum og að það séu minni holur til að sleppa undan og svindla á kerfinu. Svindlið er það sem menn þurfa að taka alveg sérstaklega á, svört atvinnustarfsemi og annað slíkt sem er vegna þess hve hár virðisaukaskatturinn er.

Ég endurtek gleði mína yfir því að vörugjaldið sé afnumið á Íslandi.