144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[12:25]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Í fyrsta lagi varðandi áfengi, tóbak og sykur. Það er fleira, það er fita sem kemur líka til. Ég hugsa að mjög margir mættu gjarnan borða minni fitu. (ÖS: Nei, … með.) Ja, sumir segja að hún sé allt að því holl. Kenningarnar breytast stöðugt þannig að kannski verður sykur allt í einu orðinn hollur þótt ég hafi ekki trú á því. Ef menn ætla að ná því inn með sköttum sem varan muni kosta seinna við heilbrigðiskerfið hygg ég að það þyrfti að hækka allverulega skatta á áfengi, tóbak og sykur. Sú hugsun að menn standi framan af ævinni með sköttum undir þeim kostnaði sem verður til í heilbrigðiskerfinu er ekki mjög gæfuleg og enn verra væri það ef menn færu að láta menn borga fyrir það eftir að þeir eru orðnir veikir. Ég held að það sé miklu betra að setja peninga í uppfræðslu, eins og gert er, og segja mönnum frá því hvað áfengi í óhófi sé hættulegt og tóbak alltaf sem og sykur. Þetta hefur tekist með tóbakið, það hefur tekist nokkuð vel með það þannig að ég held að við ættum bara að halda áfram á þeirri braut að upplýsa fólk og fræða það og setja heldur peninga í það en að skattleggja fólk.

Varðandi það hvort virðisaukaskatturinn hækki í 11% eða 12% (Gripið fram í: 14%.) — 14%, já, það er spurning hvað reynslan af breytingunni sýnir eftir eitt eða tvö ár. Er skattkerfið orðið virkara og verður það enn virkara með að hafa eitt þrep? Í sumum löndum, t.d. Danmörku, er bara eitt þrep. Það er virkasta kerfið.