144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[12:27]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að upplýsa það, samkvæmur sjálfum sér sem hann er, að það er stefnt að því að hækka virðisaukaskattinn upp í 14% síðar á þessu kjörtímabili. Þá liggur það fyrir.

Ég vil svo segja að ég er sammála hv. þingmanni um að það eigi að reyna að stoppa upp í göt í kerfinu. Það á að reyna að einfalda kerfið og fella burt undanþágur. Ég gæti vel hugsað mér virðisaukaskattskerfi þar sem allt væri í einu þrepi nema brýnustu lífsnauðsynjar, matvörur og bækur. Allt annað væri efra þrepinu undirorpið, líka leiga, mínus auðvitað húsaleigan eins og hv. þingmaður sagði. Þá væri kannski hægt að lækka skattinn niður í 22–23%. Er hv. þingmaður til í að velta fyrir sér slíkri hugmynd þar sem þó bækur og matur yrðu alltaf í lægra skattþrepi?