144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[14:22]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hjartasjúkdómar eru aðalorsök ótímabærs dauða. Menn hafa lengi reynt að grafast fyrir um orsakir þessa. Við höfum séð árum saman að menn töldu til dæmis að óhófleg saltneysla ætti þar mjög mikla sök. Nú hefur komið í ljós að það er minna hægt að rekja til þess en menn töldu áður. Hins vegar hafa menn komist að því að sykurneysla er það sem helst leiðir til hjartasjúkdóma og er þar með óbeint ein helsta orsök ótímabærs dauða. Þessa dagana birtist niðurstaða viðamikilla rannsókna í frægu tímariti um hjartasjúkdóma, Open Heart, þar sem í ljós kemur að menn geta einmitt rakið til sykurneyslu mjög mörg mein sem tengjast þessum flokki sjúkdóma. Þess vegna er ég algjörlega sammála því sem hv. þingmaður sagði í ræðu sinni áðan, að afnám sykurskattsins væri eiginlega, ég skildi hv. þingmann þannig þó að hún notaði ekki þau orð, einhver mesta vitleysa sem hægt er að hugsa sér.

Það sem mig langar til að spyrja hv. þingmann um er hvort það megi ráða af máli hennar að hún sé þeirrar skoðunar að ein röksemdin fyrir því að hafa skatt á sykri sé einmitt að með því að neyta sykurs sé mjög líklegt að menn tryggi sér aðgang að heilbrigðiskerfinu vegna þess að þeir þurfa á því að halda ef þeir neyta sykurs óhóflega. Af þeim orsökum fannst mér hv. þingmaður vera að segja að þá væri sjálfsagt að taka fjármagn af neytendum sykurs með þessum hætti, m.a. til þess að kosta afleiðingar sykurneyslunnar. Skildi ég hv. þingmann rétt þegar ég túlka orð hennar með þessum hætti?