144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[14:52]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vissi það þegar ég var kosinn til þings að ég væri íhald en að það væru svona mörg íhöld í vinstri flokkunum er mér algerlega óskiljanlegt. Ég ætla að benda þeim íhaldsmönnum sem enn eru að tala um lúxusvarning, sem ég veit ekki hver er, að það er til ágætisuppskrift fyrir þá, það eru lög um heimild fyrir landsstjórn til að takmarka eða banna innflutning á óþörfum varningi frá 1921. Þessi hugsun er í mínum flokki alveg búin að vera.

Ég ætla að spyrja þingmanninn: Hvað er lúxusvarningur? Ég veit það að tekjuhátt fólk kaupir ýmsar vörur, t.d. mat, sem tekjulágt fólk kaupir ekki og það gerist einmitt í þessari breytingu á virðisaukaskattinum, þar sem neðra þrepið er hækkað til að auka virkni skattlagningarinnar, að slíkur matur hækkar. Það eru þeir tekjuhærri sem væntanlega borga þá hækkun þannig að þetta leggst á býsna marga. Ég stend hér ansi oft og hlusta á orðið lúxusvarning. Ég veit ekki hver hann er, ég get ekki séð að heimilistæki séu lúxusvarningur.

Það er annað sem ég vildi spyrja þingmanninn um. Ég hjó eftir því að rætt var um auðlegðarskatt og ég ætla að spyrja hv. þingmann að því hvort hún telur 5,5% auðlegðarskatt skattlagningu eða eignarnám og einnig hvort hún telur 6,75% auðlegðarskatt skattlagningu eða eignarnám. Þessar tölur eru summa auðlegðarskatts á þeim árum sem hann hefur verið lagður á og auðlegðarskattur er ekki til nema í tveimur Evrópulöndum og er vandræðaskattlagning.