144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[15:08]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef greinilega ekki komið því nógu skýrt á framfæri að ég er ekki fylgjandi þessum skatti út af því að ég vilji sérstaklega stýra neyslu frá sykri. Ég er fylgjandi skattinum vegna þess að það er vitað og hefur verið vitað mjög lengi, það eru engin ný vísindi í því, að sykur veldur offitu og það er talað um sykurinn sem einn af þeim þáttum sem valda hvað mestu álagi á heilbrigðiskerfið. Þess vegna finnst mér eðlilegt að það sé sérstakur sykurskattur vegna þess kostnaðar sem neysla hans hefur til lengri tíma á samfélagið, fellur til á samfélagið og aðra skattgreiðendur. Þess vegna finnst mér hann eðlilegur. Fólk getur svo bara valið hvort það heldur áfram að kaupa hann eða ekki. Ég hef ekki tekið eftir því að sykraðar vörur hafi hækkað það illilega eftir að sykurskatturinn var lagður á að fólk hafi hætt að kaupa þær heldur þvert á móti. Ég heyri ekki betur en rökin hér séu þau að þetta virki hvort eð er ekki og best sé bara að afnema hann. En mín rök ganga ekki út á það. Þau ganga út á það að við horfum á sykurskattinn með sama hætti og t.d. á mengunarskatta og umhverfisskatta. Okkur finnst eðlilegt að fólk greiði gjald af bílum til að greiða fyrir slit á vegum sem það veldur. Það er með þeim gleraugum sem ég horfi á sykurskattinn. Svo getur fólk tekið ákvörðun um það hvort það haldi áfram að borða sykur eða eitthvað annað.