144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[15:11]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar sykurskatturinn var settur á þá heyrði ég ekki einn einasta lýðheilsufræðing mótmæla því, þvert á móti. Það var frekar mælt með honum heldur en hitt og honum fagnað. Það er einfaldlega þannig að ef fólk neytir sykurs í hófi þá finnur það ekki fyrir þessum skatti. En þeir sem neyta hans í óhófi munu finna fyrir honum og það mun valda kostnaði til lengri tíma á heilbrigðiskerfinu. Það mun valda kostnaði sem leggst á samfélagið í heild sinni. Mér finnst rökin gegn skattinum ekki ganga upp. (SÁA: Hvað er næst?) Hvað er næst? kallar hv. þingmaður fram í. Ég hef engar hugmyndir um að skattleggja neitt annað með þessum hætti, engar. Það er ekki hægt að hlæja að því í hliðarsölum. Það er frekar að hv. þingmaður ætti að svara mér því hvers vegna hún styður skattahækkanir eins og við erum að horfa á í frumvarpinu meira og minna allt í gegn, (Forseti hringir.) hækkanir á grænmeti, hækkanir á ávöxtum, hækkanir á holla vöru til að fjármagna lækkun á sykurskattinum. (Forseti hringir.) Ég mundi vilja heyra réttlætingu fyrir því en það kemur enginn með hana vegna þess að hún er ekki til.