144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[15:30]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir að spyrja að því, ég gleymdi að nefna það í ræðu minni. Það verður alltaf skýrara og skýrara að við þingmenn eigum ekki að vera að vinna svo mikið breytingartillögur við tekju- og útgjaldafrumvörp ríkisstjórnarinnar. Þetta eru þeirra frumvörp og við eigum mögulega að koma með smávægilegar breytingar en við höfum ekki aðstöðu í þinginu, í nefndum eða jafnvel með aðstoð frá ráðuneytinu, til að vinna heildstæðari tillögur. Tillagan eins og hún hljómaði upprunalega var þannig að þá væri búið að byggja inn í að þegar matartollar og kvótar yrðu felldir niður væri búið að skoða hvaða áhrif það hefði. Ríkisstjórnin tapar einhverjum peningum en á móti koma aukin umsvif sem þýðir að það skilar meiri tekjum til ríkissjóðs. Ef þetta mundi lækka matvælaverð undir heildarpakkalækkun ríkisstjórnarinnar væri mögulegt að fara í hækkanir á einhverjum öðrum sköttum. Það væri 0% hækkun á matvælum og þá væri hægt að skila þessum peningum til búvöruframleiðenda eftir því hversu mikið þetta væri, mögulega þyrfti það að fara í eitthvað annað. En þetta gæti þingmaður ekki fengið gert fyrir sig. Svona tillögur er ekki gerlegt fyrir þingmenn að fá unnar fyrir sig og við fáum ekki upplýsingar sem þarf til að vinna slíkar tillögur. Breytingartillagan sem liggur fyrir núna við þetta frumvarp er að matartollar og matarkvótar séu afnumdir og svo er það þá ríkisstjórnarinnar með ráðuneyti sína að reikna það. Við vitum að það að gera þetta er skilvirkt. Það skilar sér í hærra matvælaverði og það skilar sér í því að kostnaðurinn fyrir neytendur skilar sér mjög illa til búvöruframleiðenda. Það er því algerlega hægt, og það er skilvirkt, að ná þessum peningum inn í gegnum annan skatt og skila þá í formi beinna styrkja til búvöruframleiðenda. Þetta vitum við. En við vitum ekki nákvæmlega í hve miklu magni og hvar þurfi að taka o.s.frv. Það væri ríkisstjórnarinnar að leggja fram. En þetta er mótvægisaðgerð okkar. Hún er skilvirk og hún skilar því að matvælaverð hækkar ekki.