144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[16:07]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, eins og ég sagði í ræðu minni áðan tel ég það ekki einföldun að hafa þrepin áfram jafn mörg og þau eru og einungis að hækka prósentuna. Ég tel það ekki til þess fallið að fólk verði skilvirkara. Ég held að ef það ætlar sér ekki að skila skattinum sínum geri það það bara ekki. Mér finnst það fyrst og fremst vera útgangspunkturinn.

Það væri alveg örugglega ferðalagsins virði að kanna þessa hluti sem hv. þingmaður nefndi. Ég hef í sjálfu sér ekki kynnt mér kvikmyndahúsin eða annað slíkt en mér finnst það liggja í augum uppi, nákvæmlega eins og komið hefur fram að bóksala dróst stórlega saman þegar virðisaukaskatturinn var hækkaður. Nú þegar kostar bíómiðinn töluvert og ábyggilega leyfir margt fólk sér ekki að fara í bíó nema þá stöku sinnum. Hundraðkallinn eða tvöhundruðkallinn til eða frá fyrir verð á bíómiðum skiptir mjög marga máli, ekki samt alla eins og gengur.

Ég hef þá trú að alveg nákvæmlega eins og ég tel að það geti haft áhrif á bóksölu, á útgefendur bóka, geti það líka haft afleiðingar að hækka — ég held ekkert, ég er alveg viss um að það hefur áhrif á þá sem hafa hugsað sér að fara oftar í bíó en þeir gera, af því að það er góð afþreying, að miðinn sé hækkaður og að fólk verði að neita sér jafnvel um það þá með ódýrari afþreyingu.