144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[16:09]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það eru nokkur atriði sem ég vildi koma inn á í þessari umræðu áður en við ljúkum henni og það er hvað mér finnst mikið stefnuleysi ríkja í ákvarðanatöku ríkisstjórnarinnar sem birtist í þessu frumvarpi. Menn eru þar að mínu mati í einhverjum flumbrugangi að drífa sig að taka til baka af einhverjum mjög óljósum prinsippástæðum svokallaðan sykurskatt og til að mæta þeim kostnaði ákveða menn að demba sér í hækkun á öðrum matvælum í staðinn og neðra þrepinu í virðisaukaskattskerfinu til að fjármagna þetta og ekki bara það heldur líka til að fjármagna það að menn ætla ekki að halda áfram með álagningu svokallaðs auðlegðarskatts og eru búnir að lækka veiðigjöld og annað slíkt. Þetta birtist mér sem mikill flumbrugangur en samt er ákveðið stef í þessu. Stefið er það sem ég nefndi í fyrri ræðu minni; að menn telja það vera algert forgangsmál að létta byrðum af þeim sem mest hafa og þyngja síðan skattana á þá sem hafa minnst, það er það sem verið er að gera. Þegar flokkur eins og Sjálfstæðisflokkurinn stígur fram í tíma og ótíma og heldur því fram að hann tali fyrir lægri sköttum og einfaldara skattkerfi þá er ekkert sem gert er í frumvarpinu sem bendir til að það sé rétt. Menn fylgja í engu eftir þeim orðum með einni einustu aðgerð.

Hvað eru menn að gera hér? Menn eru ekki bara að leggja auknar álögur á heimilin í landinu og hlutfallslega mest á þá sem eru tekjulægstir með því að hækka neðra þrepið í virðisaukaskattskerfinu þar sem matvælin eru heldur ætla menn líka að skattleggja atvinnulífið til viðbótar við það sem áður hefur verið. Þar er ég að tala t.d. um ferðaþjónustuna sem fær á sig hækkun á virðisaukaskatti. Það er gert með engum fyrirvara. Þegar síðasta ríkisstjórn ákvað að hækka virðisaukaskatt á gistingu í ferðaþjónustu upp í 14% var því mótmælt mjög harðlega af þeim sömu hv. þingmönnum sem nú leggja til að það verði gert með engum fyrirvara, að virðisaukaskattur verði hækkaður á ferðaþjónustuna. Núna er það allt í lagi vegna þess að menn þurfa að fjármagna aðra ákvarðanatöku sem hefur leitt til þess að þeir þurfa tekjurnar. Þetta sýnir mér það að menn taka ákvarðanir um skattahækkanir og skattalækkanir af algeru prinsippleysi og stefnuleysi. Á síðasta ári hætta menn við að hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustu. Á þessu ári ákveða menn að það sé hið brýnasta mál að drífa í því að hækka skattinn og þá á matvæli í leiðinni og ýmislegt annað sem mun koma sem verulegt högg á þau heimili sem lægstar hafa tekjurnar. Ef við horfum aðeins í gegnum þau gleraugu á hópinn sem á t.d. minnst í samfélaginu, á ekki eignir heldur er á leigumarkaði, þá er þetta unga fólkið, þetta eru oft þeir sem eldri eru og tekjulægstir og einstæðir foreldrar o.s.frv. Það fólk fær ekki neitt út úr skuldaleiðréttingum. Það situr algerlega eftir en borgar samt engu að síður verðtryggða húsaleigu, flest af því, og er bætt það upp með því að hækka skatta á matvælum. Virðulegi forseti, hvers lags eiginlega er þetta? Ég trúi því ekki að menn séu að gera þetta meðvitað. Ég trúi því ekki vegna þess að afleiðingin er sú að stórir hópar verða algerlega eftir og fá á sig þyngri byrðar fyrir tilstuðlan stjórnarmeirihlutans nú.

BSRB, ASÍ og fleiri aðilar á vinnumarkaði hafa mótmælt þessari skattahækkun harðlega og er það skiljanlegt. Þess vegna er mér það líka algerlega óskiljanlegt hvers vegna menn ákváðu að halda henni til streitu, sérstaklega í ljósi þess ófriðar sem ríkt hefur á vinnumarkaði að undanförnu. Það er algerlega ljóst að það tryggir ekki frið á nokkurn hátt að koma fram með svona frumvarp og hlusta síðan ekkert á mótmæli stærstu launþegasamtaka í landinu, ekki neitt. Ég tel það ekki vera niðurstöðu hlustunarverkefnis að hætta við að fara upp í 12% og fara í 11% af því að hækkun er þetta engu að síður og það töluverð hlutfallslega. Mér finnst menn þurfa að svara þessu betur, þ.e. hvaða hugmyndafræði búi þarna að baki, vegna þess að það er ekki sannfærandi að gera þetta á sama tíma og menn lækka aðra skatta.

Eins og ég nefndi áðan er líka verið að auka skatta á ákveðna anga og ákveðna geira atvinnulífsins með frumvarpinu og einn þeirra er ferðaþjónustan. Fulltrúar hennar mótmæla því harðlega í umsögn, líka þeim skamma fyrirvara sem atvinnugreinin fær, vegna þess að þau þurfa auðvitað að kynna gjaldskrár a.m.k. tólf mánuði fram í tímann. Fyrirvarinn er því nákvæmlega enginn fyrir greinina. Svo verð ég líka að nefna annan anga og það er afþreyingariðnaðurinn á Íslandi. Hann fær líka verulegt högg. Þetta getur haft mjög slæm áhrif á þann geira sem framleiðir tónlist, kvikmyndir og líka þá sem eru í bókaútgáfu vegna þess að niðurhal og aðgengi að ólöglegum og ódýrari valkostum er til staðar og það veldur því ekki að fólk leiti frekar í innlenda framleiðslu á slíku efni. Ég veit ekki alveg hvort menn hafa hugsað þetta til enda. Þetta getur haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir afþreyingariðnaðinn í landinu. Sjálfstæðisflokkurinn hefur svo sem sýnt þær tilhneigingar áður að vera dálítið skattlagningarglaður þegar á hólminn er komið. En mér er það hulin ráðgáta hvers vegna menn geta ekki rökstutt þetta betur en með því að segjast vera að einfalda skattkerfið. Það birtist hverjum einasta manni og meira að segja í leiðara Morgunblaðsins að svo er ekki í þessu tilfelli. Það er algert yfirvarp að menn séu í einhverju slíku.

Að lokum vil ég nefna það að ef menn hefðu einhverja stefnu, einhverja heildarsýn og vissu nákvæmlega hvert þeir væru að fara og skildu sína eigin hugmyndafræði, þá þyrftu þeir ekki að koma fram með mótvægisaðgerð við hverja einustu aðgerð sem þeir leggja fram. Þetta er með hreinum ólíkindum. Ég held að ég hafi aldrei séð jafn mikið samansafn af svokölluðum mótvægisaðgerðum við aðgerðum einnar ríkisstjórnar, aldrei. Ég hef þess vegna skorað á fulltrúa í fjárlaganefnd að fara í gegnum það hvaða afleiðingar þessar mótvægisaðgerðir hafa fyrir kerfið og einfaldleikann og gagnsæið. Það þýðir ekkert að segja við okkur að menn séu að leggja af stað í leiðangur til að einfalda kerfið þegar þeir setja á sama tíma alls kyns krúsidúllur og lykkjur inn í kerfið til að skapa mótvægi gegn eigin aðgerðum. Þetta hlýtur að vera einhvers konar met og ég held að menn séu komnir þarna inn á ranga braut.

Það sem ég vildi líka nefna í blálokin er að mér þætti vænt um að einhver hér inni væri til í að svara mér því hvers vegna menn séu andsnúnir því að hafa skatt á sykri sem klárlega hefur í för með sér verri heilsu og þar með talið kostnað á heilbrigðiskerfið. Af hverju mega þeir sem neyta slíkrar vöru í óhófi ekki greiða fyrir það, samhliða neyslu vörunnar, eins og menn greiða t.d. mengunarskatta, menn hafa nýtt sér þá? Ég spyr hvers vegna menn geti ekki fellt sig við slíka skattlagningu (Forseti hringir.) en eru á sama tíma til í að hækka verulega og hressilega skatta (Forseti hringir.) á almenning í landinu og fyrirtæki í þeim iðnaði sem ég hef nefnt.