144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[16:23]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst það ansi þunnt hjá hv. þingmanni sem var hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra að vísa til þess að skatturinn hefði verið í gildi. Hv. þingmaður vissi það, og hæstv. ráðherra, að þetta mundi renna út. Það átti að liggja í augum uppi og þá var honum í lófa lagið að framlengja hann um tvö, þrjú ár ef hann kærði sig um. Hann kærði sig bara ekki um það og svo kennir hann öðrum um það núna.

En varðandi það hvort ég styðji þetta frumvarp, já, vissulega, ég er búinn að segja það aftur og aftur. Ég styð það að fella niður vörugjöld. Ég er mjög ánægður með það. Það kemur heimilum landsins verulega til góða. Það er nefnilega einhver sem borgar öll þessi heimilistæki sem nú lækka í verði um 13–20%. Það er einhver sem borgar það þó að menn láti í umræðunni eins og enginn borgi. Það borgar einhver sjónvarpið, eldavélina, ísskápinn og allt þetta. Þetta kemur heimilunum virkilega til góða, líka þeim sem kaupa notuð tæki því að þau munu lækka í verði líka. Ég styð það líka að lækka efra virðisaukaskattsþrepið úr 25,5%, sem var heimsmet, niður í 24%. Hann hefur aldrei verið lægri. Ég er mjög ánægður með það. Ég styð það líka að minnka bilið á milli efra og neðra þreps til að koma í veg fyrir skattsniðgöngu og skattsvik. Eftir því sem bilið er meira, þeim mun meiri hvati er til þess að sniðganga lögin og fara fram hjá þeim. Því miður er það vandamál sem við höfum alltaf átt við að glíma, líka hæstv. fjármálaráðherra síðustu ríkisstjórnar, undir lokin að ná í skattana, að koma í veg fyrir skattsvik. Það tókst ekki frekar en núna. Eftir því sem þetta kerfi er einfaldara og eftir því sem munurinn er minni og hvatinn minni, þeim mun meiri líkur eru á að kerfið virki.