144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[16:48]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni, sem ég þakka fyrir fyrirspurnina, að þetta ber nokkuð brátt að. Ef það er eitthvað sem gerir mig hlynntan því að breyta frá þessari reglu er það einmitt hvað það ber brátt að. Hins vegar er þetta mjög óeðlilegur skattur og einhvern tímann þurfum við að vinda ofan af honum. Ég er þeirrar skoðunar að það sé óeðlilegt að ríkissjóður greiði niður bílaleigubíla fyrir erlenda ferðamenn. Það er því spurningin um hvenær það gerist og hvernig. Það verður örugglega rætt mjög ítarlega í nefndinni að fengnum frekari upplýsingum.