144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[17:24]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég heyri að hv. þingmaður er jafn ringlaður og ég yfir því að menn stígi fram og segist ætla að létta sköttum af hinu og þessu og svo er þeim létt af þeim sem hafa hæstu tekjurnar og eiga mestu eignirnar, síðan eru lækkuð veiðigjöld en flestir aðrir fá hækkanir. Það er verið að sáldra hækkunum mjög víða sem koma sér afar illa fyrir til dæmis atvinnurekendur minni fyrirtækja og tekjulægri heimili. Ég held að menn átti sig ekki alveg á því hversu miklar álögur það eru í raun og veru sem litlir eða minni rekstraraðilar á ólíkum sviðum fá á sig í gegnum þær breytingar sem eru boðaðar með báðum þessum frumvörpum.

Mig langar að spyrja hv. þingmann að mjög mikilvægu máli sem hann kom inn á og tengist því sem við vorum að ræða, það er Framkvæmdasjóður ferðamannastaða. Nú hefur ferðaþjónustan búið við mjög mikla óvissu síðan þessi ríkisstjórn tók við, um það með hvaða hætti menn ætli að fara í uppbyggingu á innviðum hér á landi, vegna þess að það er eins og við vitum gríðarlega mikilvægt. Við lögðum af stað í þann leiðangur að búa til Framkvæmdasjóð ferðamannastaða sem á að fjármagna af gistináttagjaldinu og núna eru menn farnir að klípa af því til þess að nota í hítina. Það eru afar vondar fréttir.

Mig langar að spyrja hv. þingmann vegna þess að hann veit eins og ég og fleiri að stefnan í ferðamálum er allt önnur hvað varðar uppbygginguna sjálfa eins og kom fram í máli hans: Skilaði það sér ekki inn til efnahags- og viðskiptanefndar í þeirri vinnu sem þar átti sér stað? Hvernig stendur á því að menn eru að klípa þessar örfáu krónur úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða inn í hítina þegar þeir eru með áætlanir um miklu, miklu kostnaðarmeiri uppbyggingu innviða í ferðaþjónustu hinum megin? Veit vinstri höndin ekki hvað sú hægri gerir eða getur hv. þingmaður reynt (Forseti hringir.) einhvern veginn að gera okkur það ljóst hvað í ósköpunum gengur á þarna (Forseti hringir.) og hvers vegna svona upplýsingar skila sér ekki (Forseti hringir.) á milli?