144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[17:49]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég ætla mér ekki að mótmæla þingmanninum í neinu andsvari. Ég ætla hins vegar að þakka honum fyrir hvað hann fór vel í gegnum tryggingagjaldið vegna þess að ég held að tryggingagjaldið sé svolítið óljóst í hugum þeirra sem ekki þekkja vel til þess.

Sjálfstæðisflokkurinn vill einkum vera flokkur atvinnulífsins en allir aðrir eru skilst mér á móti atvinnulífinu. Fjármálaráðherrann kemur hingað hinn reiðasti og biður fólk að átta sig á því að sjávarútvegurinn sé vel rekinn og öflugur atvinnuvegur, sem ég held að við gerum okkur öll grein fyrir. Það eru lækkaðar álögur á hann þegar hann græðir sem mest en tryggingagjaldið leggst þungt á lítil fyrirtæki. Það er svo þungt vegna þess að það er launakostnaður og eins og þingmaðurinn nefndi þá fer það ekki eftir því hvernig fyrirtækjunum gengur hvort þau þurfa að greiða það eða ekki. Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort það hafi ekki verið eitt af loforðum Sjálfstæðisflokksins að lækka þetta gjald og að mikið hafi legið á því. Það getur verið að mig misminni. Ef þingmaðurinn man betur þá leiðréttir hann mig.