144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[17:58]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vildi fjalla nokkuð um þetta frumvarp en ég skrifa undir minnihlutaálit efnahags- og viðskiptanefndar með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni sem þegar hefur mælt fyrir álitinu og hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni sem hér talaði áðan. Aðeins til að byrja aftan frá á þeim þáttum sem verða venjulega út undan í umfjöllun af þessum toga vil ég byrja á því að ræða smærri málin. Bókstaflega í síðasta andardrætti formanns nefndarinnar við meðferð málsins tilkynnti hann að ákveðið hefði verið að leggja til helmingslækkun á afslætti af vörugjaldi innflutnings á bílaleigubílum. Tillagan fékk enga umræðu í nefndinni, ekki nema bara við úttekt málsins, ekki var óskað eftir umsögnum um hana og hagsmunaaðilar fengu ekkert tækifæri til að ræða þessa tillögu við nefndina. Engar tölur og greiningar voru lagðar fram og þar af leiðandi er ekkert ljóst um hvernig þetta muni koma við bílaleigur, ferðaþjónustu í landinu eða bílaumboðin. Það ber sérstaklega að hafa í huga að endurnýjun stendur yfir, menn hafa reiknað með tilteknu regluverki og breytingin á að skella á um áramót. Ég vil þess vegna nota þetta tækifæri til að óska eftir að málið gangi til nefndarinnar milli umræðna og það gefist færi á að kalla hagsmunaaðila að og gefa þeim færi á að tjá sig, þótt ekki væri annað, og fyrir ráðuneyti að leggja fram einhver efnisleg gögn um það — (PHB: Búinn að óska eftir því.) búinn að óska eftir því, segir hv. þm. Pétur Blöndal. Það er gott því að það er mjög mikilvægt að gefa hagsmunaaðilum og auðvitað ráðuneytinu færi á að rökstyðja þessa breytingu. Það kann vel að vera ástæða til þess að þrengja frekar það svigrúm sem bílaleigurnar hafa haft að þessu leyti en við þurfum þá að vita nákvæmlega á hvaða forsendum slíkar ákvarðanir eru teknar.

Það kom líka fram á lokasprettinum í vinnunni við málið fyrir nefndinni að ekki stæði til að framlengja á nokkurn hátt ákvæði um að fella niður opinber gjöld vegna innflutnings bifreiða sem nota umhverfisvæna orkugjafa. Þetta kom okkur líka fullkomlega í opna skjöldu. Mér finnst þetta sérstaklega orka tvímælis út frá stefnumörkun sem — (PHB: … verið framlengd.) Já, ég fagna því. Hv. þm. Pétur Blöndal hefur stungið upp á að þessi heimild verði framlengd. Ég hlakka til að fara yfir það í nefndinni því að eitt af stórum sóknarfærum Íslands er að vera í fararbroddi orkuskipta í samgöngum. Ég held satt að segja að með þeim miklu tækniframförum sem orðið hafa í framleiðslu rafmagnsbíla á síðustu árum séum við komin býsna nærri því að geta markað stefnuna, skipt alfarið út bílaflota okkar á frekar stuttum tíma, þá er ég að tala um innan tíu ára, fyrir bílaflota sem yrði þá knúinn með innlendu eldsneyti, með rafmagni. Það held ég að væri gríðarlega mikilvægt, ekki bara framlag okkar í baráttunni við útblástur gróðurhúsalofttegunda heldur líka til að sýna umheiminum að þessi breyting er möguleg. Ef eitt samfélag á Vesturlöndum getur tekið slíka ákvörðun hefur það fordæmisgildi gagnvart öðrum og getur þar af leiðandi skapað meiri þrýsting á bílaframleiðendur til að auka fjárfestingu í rannsóknum og þróun til að auka sérstaklega langdrægni rafmagnsbíla. Það er mikilvægasta úrlausnarefnið eins og staðan er í dag. Framþróunin hefur verið kraftaverki líkust á síðustu fimm árum, bæði í stærð rafhlaðnanna og drægni bílanna. Lykilforsendan fyrir því er að kolefniseldsneyti sé dýrt og stærri markaður myndist fyrir rafmagnsbíla þannig að þetta verði ekki jaðarframleiðsla heldur í sífellt vaxandi mæli alvörusamgöngukostur. Þetta er kjörið fyrir land eins og Ísland sem getur framleitt afskaplega ódýrt rafmagn og er með svo mikla ónýtta orku á nóttunni að það er hægt að stinga bílaflota landsins í samband yfir nóttina og það hefur ekki nokkur áhrif. Sú orka liggur á lausu og því er það mjög spennandi kostur, satt að segja.

Átakið Allir vinna er fellt niður án nokkurs efnislegs rökstuðnings. Ég vek sérstaka athygli á því hér að þegar fulltrúar atvinnulífsins komu fyrir nefndina vöktu þeir í tillögum sínum um endurskipulagningu virðisaukaskattskerfisins athygli á því að víða í nágrannalöndum okkar er byggingariðnaðurinn almennt í virðisaukaskattskerfinu. Íbúðarbyggingin í heild sinni er þar af leiðandi í virðisaukaskattskerfinu en síðan er endurgreiðsla á virðisaukaskatti vegna þjónustu á byggingarstigi. Þessar aðgerðir sem við vitum að hafa skilað góðum árangri í að tryggja betri skattskil hafa auðveldað litlum aðilum að komast í gegnum erfiðan tíma og greitt fyrir því að einstaklingar í minni háttar viðskiptum sín á milli við endurnýjun íbúðarhúsnæðis hafi allt uppi á borði. Þegar horft er á hinn samfélagslega ávinning af þessari aðgerð allri saman finnst mér mikið skorta á röksemdafærsluna fyrir því að fella hana niður.

Mikið hefur verið fjallað um S-merktu lyfin. Ég ætla ekki að eyða miklum tíma í þann þátt en hér er breyting sem vissulega fellur að almennum breytingum á fyrirkomulagi á lyfjagreiðslukerfi en það verður ekki fram hjá því litið að þetta eru 145 milljónir sem leggjast munu á sjúklinga og kemur þannig inn í uppsöfnunina á nýju sjúklingaálögunum sem ríkisstjórnin stendur fyrir. Það er hægt að færa fyrir því einhver rök að eðlilegt sé að gera þessa breytingu út frá samræmi við hið almenna lyfjaþátttökugreiðslukerfi en álögurnar eru engu að síður staðreynd og þegar þær leggjast saman við aðrar álögur á almenning vegna heilbrigðisþjónustu sem fara vaxandi í tíð þessarar ríkisstjórnar er þetta áhyggjuefni.

Í frumvarpinu er lagt til að tekjur af sölu losunarheimilda verði ekki markaðar til loftslagssjóðs heldur renni beint í ríkissjóð. Þessi ágæta ríkisstjórn er alltaf að grobba sig af skattalækkunum. Hún leggur almennar álögur á almenning fyrir öll sjálfsögð réttindi og alla sjálfsagða aðstöðu, hvort sem eru afnot af heilbrigðisþjónustu eða annað, og núna stendur til að skattleggja sérstaklega unaðsstundir í náttúrunni. Með sama hætti stendur hún svo ekkert í skattalækkunum gagnvart fyrirtækjum. Það eru stöðugar álögur, alls konar skattar settir á fyrirtæki, bara ekki tekjuskattur. Þess vegna er ekki verið að skattleggja hagnað fyrirtækjanna. Það er bara verið að skattleggja alla atvinnustarfsemina. Tryggingagjaldinu er breytt í almennan tekjustofn ríkisins eins og nú hefur verið gert. Minnkun atvinnuleysisins skilar sér ekki til atvinnulífsins. 1% lækkun á tryggingagjaldi skilar 1.700 störfum, það væri hægt að ráða 1.700 manns. Það er ósköp eðlilegt að atvinnulífið, jafnt verkalýðshreyfingin sem Samtök atvinnulífsins, kvarti yfir því að tryggingagjaldið lækki ekki samhliða minnkandi atvinnuleysi. Þetta er ósanngjarn skattur. Það er ekki bara að hann leggist á fyrirtæki óháð því hvort þau skili hagnaði eða ekki. Hann leggst þyngst á ákveðna tegund fyrirtækja, þekkingarstarfsemi. Þeim mun meiri þekkingu sem menn þurfa, þeim mun meira mannafl sem þeir þurfa, þeim mun þyngra leggst hann á þá. Fyrirtæki sem eru fjármagnsfrek, t.d. stóriðjan, eru með hverfandi kostnað vegna launa vegna þess að stærstur hluti rekstrarkostnaðarins er falinn í öðrum þáttum, í vélbúnaði, orku og öðrum aðföngum.

Svo bætist hér við loftslagssjóðurinn. Það er verið að taka til baka alla markaða tekjustofna sem eiga að renna til sérstakra verkefna og talið var eðlilegt að atvinnulífið greiddi fyrir. Nú er sem sagt verið að leggja á nýja fyrirtækjaskatta almennt í landinu óháð því hvort fyrirtækin skila hagnaði eða ekki og þeim mun meiri og þyngri skatta sem fyrirtækin eru í meiri þekkingarstarfsemi.

Ég hef svo oft talað á undanförnum vikum um ógöngurnar sem ríkisstjórnin er komin í með Framkvæmdasjóð ferðamannastaða að það fer að æra óstöðugan að setja á enn eina ræðuna um það efni og þá þrá hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra að fylla landið af náttúruvarðliðum sem snuðri ofan í hvers manns koppi. Ég verð þó að segja að það hvernig ríkisstjórnin hefur komið fram gagnvart Framkvæmdasjóði ferðamannastaða og gerir ráð fyrir hér líka að rýra hann, sem er ekki gildur fyrir, á sama tíma og hún hefur verið afskaplega hæg í því að koma með framtíðarlausn á fjármögnun uppbyggingar ferðamannastaða er mjög ámælisvert, sérstaklega þegar haft er í huga að fyrir nefndina komu fulltrúar ferðaþjónustunnar og röktu það fyrir okkur sem ég hafði ekki áttað mig almennilega á fyrr en þeir komu, að jafnvel þótt hinir villtustu draumar hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra verði að veruleika með náttúruvarðliðasveitirnar mun náttúrureisupassinn samt engu skila, mun ekki skila fullnægjandi fjármagni í sjóð til að framkvæma fyrir fyrr en á árinu 2016. Gjaldið verður ekki lagt á fyrr en 1. september 2015, í lok næsta árs, og það er að því tilskildu að hæstv. ráðherra takist með töfrabrögðum að sannfæra þingheim um ágæti þessara hugmynda sem engar horfur eru á. Og jafnvel þótt henni tækist það fyrir sumarið leggst gjaldið á fyrst næsta haust og fyrsta heila árið sem gjaldið er greitt er þá árið 2016 þannig að það er fyrst hið sæla ár 2017, það sumar þegar við fögnum því öll sem eitt að hafa hrakið þessa ríkisstjórn af höndum okkur, sem við sjáum fram á að sjóðsöfnunin úr reisupassanum skili þeim árangri að hægt sé að framkvæma með fullnægjandi hætti um land allt á grundvelli þeirrar gjaldtöku. Reisupassahugmyndin öll er einhver óljósasta ávísun á framtíðina sem ég hef séð frá þessari ríkisstjórn og er þó af mörgu að taka.

Virðulegi forseti. Stærsti hlutinn er aðförin að hinum samningsbundnu réttindum launamanna sem ég hef oft gert að umtalsefni en tel óhjákvæmilegt að gera hér enn. Varðandi styttingu atvinnuleysisbótatímabilsins fer ríkisstjórnin fram með rangfærslur og hrein ósannindi í frumvarpinu um að það sé eðlilegt að minnka rétt til atvinnuleysisbóta samfara minnkandi atvinnuleysi vegna þess að aukið hafi verið við réttindin í kjölfar efnahagshrunsins. Það er efnislega rangt. Vissulega var í félagsmálaráðherratíð minni tímabilið lengt úr þremur árum í fjögur en það er búið að draga þá lengingu til baka. Stefnan um þrjú ár sem atvinnuleysisréttindatímabil var mörkuð áður en atvinnuleysið hófst að marki á Íslandi, hún byggir á lögum frá árinu 2006, þannig að þó að lítillega hafi dregið úr atvinnuleysi, ekki nándar nærri nóg, eru engin efnisrök fyrir því að hætta stuðningi við atvinnulaust fólk eða gera eins og ríkisstjórnin hefur nú þegar ákveðið að gera, að hætta svo að segja öllum verkefnum til þjálfunar fólks sem hefur glímt við atvinnuleysi til að auðvelda því að komast aftur út á vinnumarkaðinn.

Í Danmörku þar sem atvinnuleysisbótatímabilið var stytt í tvö og hálft ár var það gert á grundvelli greininga á áhrifum og alvörumati og var fylgt með auknum rétti atvinnuleitenda til virkniaðgerða og námsúrræða og komið á nýju kerfi bóta sem gilda í tvö ár eftir tvö og hálft ár þannig að samanlagður tími atvinnuleysisbótaréttinda í Danmörku, sem er sambærilegur við íslenska kerfið, er sem sagt fjögur og hálft ár, ekki tvö og hálft. Þegar menn ætla að koma hingað með alþjóðlegan samanburð er lágmark að menn hafi uppi réttar staðhæfingar.

Að síðustu sem skiptir nú allra mestu máli: Þegar bótaréttindatímabilið var stytt í Danmörku gilti það bara um þá sem hófu töku bóta frá og með þeim tíma. Þeir sem höfðu hafið töku bóta á grundvelli fyrri réttinda héldu þeim óskertum. Hér er hins vegar ekkert aðlögunartímabil.

Ríkisstjórnin ætlar að fella tiltekna hluta ferðaþjónustunnar undir virðisaukaskatt með lögum núna um áramótin. Það mun ekki koma til framkvæmda um næstu áramót, það kemur til framkvæmda 1. janúar 2016. Það er mjög skynsamlegt að veita slíkan aðlögunartíma en hinir atvinnulausu sem verða fyrir réttindaskerðingu samkvæmt þessu frumvarpi munu þurfa að þola hana 1. janúar nk. 1.300 manns munu missa framfærslu sína um næstu áramót og á fyrri sex mánuðum næsta árs. Það er enginn aðlögunartími eins og fyrir atvinnugreinar sem þurfa að þola breytingar á starfsskilyrðum. Aðeins hluti þessara einstaklinga mun eiga bótarétt hjá sveitarfélögum og sú augljósa hætta blasir við að þessi hópur hverfi sjónum okkar, við munum ekki sjá hann í tölfræði á næstu árum fyrr en allt í einu munum við sjá mikla fjölgun örorkulífeyrisþega. Það er reynslan frá öðrum löndum sem hafa farið svipaðar leiðir. Þetta er svo misráðið sem hugsast getur. Í stað þess að halda í höndina á fólki og hjálpa því til að komast aftur út á vinnumarkaðinn á að ýta því til hliðar. Á sama tíma eru skornar niður fjárveitingar til þjónustu við fólk sem er í atvinnuleit, þjálfun og uppbyggingu þekkingar. Þar fyrir utan felur breytingin bara í sér tilfærslu kostnaðar, þ.e. framfærsluskyldur sveitarfélaganna munu aukast á móti og það er í hróplegu ósamræmi við stefnumörkunina í lögum um opinber fjármál. Það fjárlagafrumvarp er að verða eins og hver annar brandari. Munið þið eftir því sem hæstv. fjármálaráðherra sagði að ætti að vera grunnurinn og hornsteinninn að efnahagsstefnunni og þyrfti að afgreiða fyrir áramót? Það er orðið svo mikið vandræðamál fyrir ríkisstjórnina að það heyrist ekkert meira af því enda stenst engin af aðgerðum ríkisstjórnarinnar viðmiðin sem er að finna í lagafrumvarpinu um opinber fjármál. Þessi ríkisstjórn rekur svo handahófskennda efnahagsstefnu, brýtur svo gegn meginreglunum sem þar er að finna að öll hennar efnahagsstefna fengi falleinkunn ef lögin væru komin í gildi. Þess vegna er þetta frumvarp orðið eins og óhreina barnið hennar Evu og hæstv. fjármálaráðherra þorir ekki einu sinni að nefna það lengur á nafn.

Virðulegi forseti. Það er líka gert ráð fyrir því að sinna ekki samningsbundnum og lögbundnum skyldum um greiðslur ríkisins í starfsendurhæfingarsjóð og að ganga gegn gildandi samkomulagi um greiðslur ríkisins til jöfnunar örorkubyrði. Það er búið að rekja ágætlega í umræðunni af hverju það er nauðsynlegt að þetta tvennt verði fyrir hendi. Það er vert að hafa í huga að hér er verið að brjóta samningsbundin réttindi á launafólki. Á sama tíma lætur ríkisstjórnin í veðri vaka að þörf sé á þjóðarsátt. Hvernig á verkalýðshreyfing að geta sest að borði með mönnum sem ganga fram með svikum af þessum toga? Hvernig á verkalýðshreyfing að geta réttlætt það fyrir umbjóðendum sínum að setjast að borði og byrja á að kaupa dýru verði aftur réttindi sem voru umsamin og voru í hendi? Það er ógjörningur. Engin verkalýðsforusta mun ráða við það. Þess vegna er alveg ljóst öllum sem eru með opin augu, öllum sem hafa skilningarvitin opin, að kjarasamningar verða ekki með friði í landinu gangi þessar tillögur ríkisstjórnarinnar eftir. Ríkisstjórnin mun þurfa að koma eins og lúbarinn rakki með skottið á milli lappanna og draga þetta allt til baka áður en kjarasamningar geta hafist. Það vita allir og líklegast ráðherrarnir sjálfir nema þeir séu algjörlega skyni skroppnir. Þetta er hin bitra staðreynd. Það mun engin verkalýðsforusta geta samið við stjórnvöld sem ganga fram með slíkum brigðum eins og ríkisstjórnin er að gera núna og einhliða brotum á samningsbundnum réttindum.