144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[18:18]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegi forseti. Það er eitt helsta fagnaðarefni fjárlaga næsta árs að gert er ráð fyrir afnámi almennra vörugjalda. Vörugjöld eru í eðli sínu eða hafa verið í framkvæmd tilviljanakennd og ógagnsæ skattlagning. Skattar eiga nefnilega að vera almennir og skattstofnar breiðir. Oft eru undanþágur frá sköttum eins og vörugjöldum tímabundnar í upphafi en þeim hættir til að fá framlengt líf. Hvers kyns slíkar undanþágur, tímabundnar eða öðruvísi, eru til þess fallnar að grafa undan því jafnræði sem nauðsynlegt er að viðhafa við skattlagningu.

Hér hefur verið nefnt í umræðum um þetta dagskrármál átakið Allir vinna. Það er dæmi um undanþágu frá skattskyldu sem kemur til vegna þess að menn viðurkenndu hreinlega að virðisaukaskattur hér er allt of hár. Hann er það hár að menn viðurkenndu líka að undanskot frá honum tíðkuðust og tíðkast. Það er leiðinlegt að þurfa að segja það en menn viðurkenndu þetta sérstaklega og forsenda átaksins var að undanskot tíðkuðust sérstaklega í þeirri atvinnugrein sem átakið náði til. Í því ljósi var átakið endurupptekið, því það hefur reyndar verið, ef ég man rétt, meira eða minna við lýði í nokkur ár eða áratug, ef ekki tugi. Þetta var hins vegar ástæðan fyrir því að menn ákváðu að taka upp þetta átak með sérstökum hætti árið 2009 og 2010. Og það er reyndar athyglisvert að sú ríkisstjórn sem var við stjórnvölinn á síðasta kjörtímabili, sem lagði mikla áherslu á kynjaða fjárlagagerð, tók það aldrei sérstaklega upp að undanþágan var auðvitað til hagsbóta fyrir iðngreinar sem karlmenn hafa hingað til einokað. Margar iðngreinar áttu í sama rekstrarvanda og hinir ágætu iðnaðarmenn í þessu landi á tímanum eftir hrun en voru að mestu leyti skipaðar konum. Það var aldrei léð máls á því að þær atvinnugreinar fengju undanþágu frá virðisaukaskatti í því markmiði að auka atvinnu og bæta rekstur hjá því ágæta fólki. En ég fagna því í sjálfu sér ef dregið er úr undanþágum að þessu leyti.

Ég vil víkja nú að þeirri breytingartillögu sem liggur fyrir í málinu. Jafn ágætt og það er að hin almennu vörugjöld verði felld niður, það er mikið fagnaðarefni og ég tel að það hafi ekki fengið verðskuldaða athygli í umræðunni hversu stórt skref er stigið með því, má ekki gleyma því að áfram verða við lýði sérstök vörugjöld, til að mynda vörugjöld af bifreiðum, samkvæmt lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. Vörugjöld verða áfram lögð á bifreiðar.

Það er eins og með virðisaukaskattinn sem ég var að lýsa, menn viðurkenna að vörugjöld af bifreiðum eru of há, þau eru óbærilega há. Menn viðurkenndu það fyrir löngu síðan og þess vegna var farið að staga í lög um vörugjald af ökutækjum og veita undanþágur, sumum, ekki öllum. Þannig hafa leigubílar fengið undanþágur frá vörugjöldum upp að ákveðnu marki, rútubifreiðar og bílaleigur eins og komið hefur verið inn á í umræðunni. Rekstraraðilar bílaleigna hafa notið undanþágu frá vörugjöldum upp að ákveðnu marki og nemur sú fjárhæð 1 millj. kr. Nú er það svo að í breytingartillögu við það mál sem nú er til umræðu er lagt til að fjárhæðin verði lækkuð um helming, niður í 500 þús. kr. Það er gott og blessað. Ég tel í hæsta máta óeðlilegt að menn veiti almennt undanþágur frá þeim sköttum sem lagðir hafa verið á, eins og ég hef lýst, að því gefnu að skattarnir séu hóflegir og sanngjarnir og lagðir á alla. En því er ekki að heilsa með vörugjöld af bifreiðum. Gott og vel, nú vilja menn trappa sig niður með undanþáguna, eins og það var orðað hjá framsögumanni. Eftir stendur hins vegar að mínu mati að breytingin varðar mikla hagsmuni þeirra sem standa í þessum rekstri, og ég geri athugasemdir við þau vinnubrögð sem viðhöfð eru hvað þetta varðar. Ég sé að í nefndaráliti minni hlutans er vikið að þessu sérstaklega og því er lýst að breytingartillagan hafi verið sett fram á síðustu mínútum umfjöllunar um frumvarpið og án nokkurrar greiningar á afleiðingum hennar á þá sem hana varða. Þeir sem standa í þessum rekstri hafa bent á það og mig rekur sjálfa minni til þess að hafa í þessum sal á hinni svokölluðu aðventuvertíð þingsins séð Alþingi breyta rekstrarumhverfi sömu aðila með mjög skömmum fyrirvara; í desember komi gríðarleg breyting á forsendum rekstrar sem eigi að taka gildi nokkrum dögum síðar. Ég geri athugasemdir við það.

Lög um vörugjald á ökutæki, eldsneyti o.fl., hafa tekið endalausum breytingum, nánast á hverju einasta ári undanfarið og mér finnst rétt að benda á að kannski hefði verið nær að endurskoða gjaldstofninn á vörugjaldinu sem leggst á bifreiðar. Síðasta endurskoðun á honum fór fram árið 2010, að mér telst til, og var ekki til bóta þegar skattstofninum var breytt, þ.e. viðmiðun við skattlagninguna var breytt úr stærð vélar bifreiðar yfir í losun á koltvísýringi, magn skráðrar losunar. Það hefur haft þau áhrif að dísilbifreiðum er hyglað á kostnað bensínbíla. Við þessa umræðu hefur mikið verið rætt um neyslustýringu almennt og það er ótvírætt að með þessari skattlagningu er verið að stýra neytendum, kaupendum bifreiða, yfir í kaup á bílum sem menga mun meira, hafa í för með sér hættulegri mengun og þess utan á minni og óöruggari bílum. Það er alvarlegt mál, að mínu mati. Ég hefði talið rétt, ef nefndin er á annað borð að endurskoða ákvæði í þessum lögum, að hún hefði litið til þessara atriða og lagt til breytingar á þeim.

Því miður er það víst þannig að vörugjöld á bifreiðar verða ekki lögð af í þessari atrennu. Hins vegar má öllum vera það ljóst að allur þessi hringlandaháttur með vörugjöld á bifreiðar er einungis staðfesting á því að þau eru ósanngjörn og skattlagningin er að sliga þá sem gjöldin bera. Að þessu sögðu mælist ég til þess að nefndin endurskoði breytinguna sem varðar þennan tiltekna hóp sem hefur gert ráð fyrir því að búa við undanþágu að einhverju leyti frá vörugjöldum á næsta ári og að endurskoðun á vörugjöldum á bifreiðar í heild fari fram hið fyrsta, þannig að einstakir hópar njóti ekki afsláttar af þeim sköttum sem Alþingi hefur ákveðið að leggja á. En markmið þessarar ríkisstjórnar, í öllu falli allra ríkisstjórna sem Sjálfstæðisflokkurinn mun eiga aðild að, hlýtur að vera að afnema þessi vörugjöld eins og önnur vörugjöld.