144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[19:10]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Herra forseti. Þetta eru ansi góðar umræður og mjög margt hefur komið fram og ég þakka fyrir það. Þegar ég hlýddi á hv. þm. Guðmund Steingrímsson hafði ég á tilfinningunni að stjórnarliðar væri upp til hópa vont fólk og hann skildi ekkert í því af hverju við værum að klípa hér og þar o.s.frv. En auðvitað er á bak við allt þetta sú hugsun að reyna að halda afgangi á ríkissjóði. Og af hverju skyldu menn vilja það? Af hverju hleypa menn ekki öllu í bál og brand og eyða út og suður? Vegna þess að það kostar verðbólgu. Það er bara svo einfalt.

Sú lága verðbólga sem við höfum upplifað síðasta ár er virkilegt gleðiefni fyrir heimilin og hún er vegna þess að mínu mati að ríkissjóður er rekinn með miklu meiri aga og með afgangi. Það er mín trú alla vega. Það getur vel verið að aðrir hafi aðrar skoðanir á því. En það er til ákveðin kenning að ef það er halli á afkomu ríkis og sveitarfélaga samanlagt, ef það er halli á þeim rekstri, þá er verið að prenta peninga og það þýðir verðbólga. Það er mjög mikilvægt að halda ríkissjóði í járnum og hafa hann með afgangi og þess vegna standa menn í því sem sumir hér kalla svik og slíkt.

Menn hafa rætt mjög mikið um tryggingagjald og með réttu. Tryggingagjaldið er eiginlega það fyrsta sem mig langar til að lækka af því að það er skattur á atvinnu og okkur vantar — eða reyndar vantar okkur ekki svo mikið atvinnu lengur en okkur vantaði hana. Og okkur vantar fjárfestingu. Tryggingagjaldið vinnur líka gegn því að menn stofni fyrirtæki og ráði fólk. Mig mundi langa til að lækka tryggingagjaldið. En þá kemur að afkomu ríkissjóðs. Lækkun tryggingagjalds um 1% þýðir 7 milljarða í mínus fyrir ríkissjóð af því að heildarlaunasumman er um 700–800 milljarðar. Ég get ekki lagt slíkt til.

Við vorum í gær að samþykkja, a.m.k. stjórnarliðar, að ríkissjóður greiddi yfir 80 milljarða í vexti. Af hverju skyldi hann greiða svona óskaplega mikið í vexti og gátum við greitt atkvæði gegn því? Sumir gerðu það reyndar eða sátu hjá. Þetta er orðinn hlutur. Skuldir ríkissjóðs eru þvílíkar, svo gífurlegar og geigvænlegar og þess vegna erum við með svo háa vexti, 50 þús. kr. á hvert einasta heimili á hverjum einasta mánuði. 50 þús. kr. á mánuði fyrir hvert einasta heimili í landinu. (BjG: Þið greidduð ekki niður skuldir.) Við greiddum ekki niður skuldir, en skemmtilegt. Hvar áttum við að taka peninga til þess? Þá veit ég alveg hvað hv. þingmaður segir. (Gripið fram í: …á sköttum.) Akkúrat. (BjG: Skuldaleiðréttingin.) (Forseti hringir.) Þá kemur að því hvernig menn vilja haga fjármögnun ríkissjóðs, hvort menn vilja skattleggja hér eða þar. Þetta er stefna þessarar ríkisstjórnar og hún er að reyna að beina núna peningum, vegna betri afkomu, í heilbrigðiskerfið sérstaklega. (Gripið fram í: Þið gáfuð tuttugu… sem ekki þurftu á því að halda.)

Nokkuð hefur verið rætt um Allir vinna. Það er náttúrlega mjög sérstakt fyrirbæri. Það er verið að endurgreiða virðisaukaskatt vegna skattsvika og hvað segir það mér? Ég veit ekki hvað það segir öðru fólki, öðrum hv. þingmönnum, en það segir mér að skatturinn sé of hár. Þegar skattsvikin verða svona almenn þá er skatturinn orðinn of hár, þ.e. 25,5% virðisaukaskattur er of hár og það verður að lækka hann. En ég veit ekki hvort hann lækki nógu mikið til að við komum í veg fyrir skattsvik en þrýstingurinn minnkar alla vega á það að endurgreiða 100% allan virðisaukaskatt af vinnu á starfsstað, ef unnið er á heimili og annað slíkt. Við ætlum sem sagt að hverfa til gömlu reglunnar um 60% endurgreiðslu og vonast til að hún sé nægilega mikil til að koma í veg fyrir skattsvik.

Nokkuð hefur verið rætt um rafbíla. Nefndin hefur fjallað um það og menn hafa skiptar skoðanir á því hvort lækka eigi tolla, vörugjöld eða fella niður virðisaukaskatt á rafbílum. Þá er verið að lækka verð á þeim bifreiðum og verið að skekkja verðið. Þeir bílar sem eru mjög dýrir í innkaupum fyrir þjóðfélagið verða ekki eins dýrir fyrir neytendur. Og það er spurning hvort sá sparnaður sem næst með minni innflutningi á olíu allan líftíma bílsins nái að greiða upp hærra verð á bílnum. Hins vegar getum við horft til þess að með rafbílum eru innlendir orkugjafar nýttir og það er ákveðin stefna sem menn geta tekið. Ég er í sjálfu sér hlynntur því og hef verið það að lækka virðisaukaskatt á bílum eða fella hann niður og vörugjöld og allar álögur til að örva þá breytingu að fara úr bílum sem eyða jarðefnaeldsneyti yfir í bíla sem nota hreina íslenska raforku.

Nokkuð hefur verið rætt um styttingu á atvinnuleysisbótatímabilinu. Menn hafa ekki fallist á rök nefndarinnar um það að atvinnuleysi hafi minnkað og telja að svo og svo margir muni verða öryrkjar eða fara yfir til sveitarfélaganna. Kúfurinn sem varð til rétt eftir hrunið, 2009, fjöldi þeirra sem urðu atvinnulausir þá, er nú þegar kominn af atvinnuleysisbótum og hefur farið sína sorglegu leið sem t.d. starfsgetumat hefði hugsanlega getað lagað. Ég er ekki að segja að slíkt mat hefði lagað það en það hefði hugsanlega getað mildað þau áhrif. Þess vegna er svo mikilvægt að taka upp starfsgetumat sem ég er að vinna að annars staðar.

Menn hafa rætt um fleira. Hv. þm. Katrín Júlíusdóttir ræddi um ófriðinn við aðila vinnumarkaðarins Það á ekki við um nefndina. Hún fékk þá aðila á sinn fund, fékk frá þeim umsagnir, ræddi við þá og hlustaði á þá og nú hefur komið í ljós að það er hægt að setja peninga bæði í VIRK og í örorkusjóðinn, reyndar mjög takmarkað eins og þessi fræga staða ríkissjóðs leyfir.

Hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir talaði um 25 ára markið við menntun. Hún gleymdi að geta þess að það á eingöngu við um menntaskóla en ekki um starfsmenntun. Fólk getur haldið áfram að fara í starfsmenntun og það er nú kannski einmitt það sem vantar, fólk með slíka menntun, iðnmenntun eða aðra slíka menntun sem er mjög góð og verðmæt.

Síðan kom fram varðandi styttingu atvinnuleysisbótatímabilsins að fólk sem er komið yfir ákveðinn aldur lenti í vandræðum. Það er náttúrlega hárrétt, herra forseti, og því miður hafa lengi verið ákveðnir fordómar, ég kalla það fordóma, atvinnulífsins gegn fólki sem er komið yfir ákveðinn aldur. Það á og hefur alltaf átt erfitt með að fá vinnu. Þessu þurfum við að breyta og atvinnulífið þarf að gera sér grein fyrir því að þetta getur oft verið mjög verðmætur starfskraftur á grundvelli þeirra reynslu sem það hefur aflað sér. Það gerir ekki sömu fljótfærnislegu mistökin og yngra fólk þótt það kannski vanti eitthvað upp á snerpuna.

Ég held að ég sé búinn að fara í gegnum flest atriðin. Hv. þm. Sigríður Andersen kom mjög skemmtilega inn á átakið Allir vinna og að það væri endurgreiðsla á of háum sköttum. Það sama er með bílaleigubílana. Það er líka endurgreiðsla á of háum vörugjöldum á bíla, því miður ekki fyrir alla heldur fyrir suma. Það hefur leitt til þess að helmingur bíla undanfarin ár hefur verið fluttur inn til bílaleigna sem hafa svo selt þá 18 mánuðum seinna til almennings. Almenningur er því að kaupa 18 mánaða gamla bíla og mikið keyrða vegna þess að vörugjöldin eru hreinlega of há. Þetta er eitthvað sem menn þyrftu kannski að skoða til framtíðar en við erum jú að fella niður vörugjöldin í 2. máli, sem ég tel vera mjög mikilvægt, þ.e. önnur vörugjöld en vörugjöld á bifreiðar.

Ég held að ég sé búinn að taka á vel flestu því sem hér var rætt. Ég vil þakka fyrir umræðuna og endurtek að við munum ræða þetta mál aftur í hv. efnahags- og viðskiptanefnd þar sem ég á sæti og taka þá fyrir sérstaklega rafbílana og slíka bíla og eins munum við skoða mjög vendilega breytingar á lögum um bílaleigur og athuga hvort eitthvað sé hægt að gera þar en ég lofa engu í því sambandi. En ég held að ég hafi þetta ekki fleira og þakka fyrir þessa góðu umræðu.