144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

Seðlabanki Íslands.

390. mál
[20:10]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mér leið nú ekkert sérlega vel undir þessari framsöguræðu hv. þm. Frosta Sigurjónssonar. Hér við 1. umr. þessa máls urðu töluverðar umræður, sem ég tók m.a. þátt í, um það hvort frumvarpið væri í reynd forsenda einhvers konar bókhaldsæfingar sem rétti hlut ríkissjóðs um 26 milljarða kr. Ég varpaði þeirri spurningu m.a. til þess manns sem ég tel að af þeim sem hér sitja hafi hvað gleggsta þekkingu á Seðlabankanum, ríkissjóði og samskiptum þessara tveggja. Hann taldi ekki að yfirveguðu máli, jafnvel þótt honum væri gefinn kostur á að íhuga það undir umræðunni, að hér væri svo langt gengið að kalla mætti það bókhaldsæfingu. Ég ætla ekki að halda því fram að lesa megi það út úr orðum hv. framsögumanns, en þegar hann las beint upp úr nefndarálitinu orðaði hann það þannig að meiri hlutinn teldi að Seðlabankanum væri ekki hætta búin með samþykkt þessa frumvarps. Mér finnst það ekki mjög traustvekjandi orðalag, satt að segja.

Sömuleiðis vil ég líka nefna það, af því ég ber djúpa virðingu fyrir hv. þm. Frosta Sigurjónssyni þegar kemur að því að rýna í tölur, að hann orðaði það svo að sitt álit væri að það að Seðlabankinn notaði tekjur af eignasafni sínu til að mæta rekstrarkostnaði og að tap yrði á rekstri Seðlabankans ef það væri ekki gert í dag, leiddi til þeirrar niðurstöðu að hans mati að Seðlabankinn væri hvorki sjálfstæður né trúverðugur. Það finnast mér vera giska hörð orð frá formanni efnahags- og viðskiptanefndar og bið hann að skýra þetta aðeins gleggra fyrir mér.