144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

Seðlabanki Íslands.

390. mál
[20:19]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég get tekið undir það með hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að það er kannski ekki neitt sérstaklega hughreystandi að heyra þetta orðað þannig að sjálfstæði Seðlabankans sé ekki hætta búin með afgreiðslu þessa máls. Það er svolítið önuglegt vegna þess að frumvarpið á einmitt að styrkja sjálfstæði Seðlabankans, það er einn megintilgangur þess. Það er eins gott að það klikki þá ekki eða snúist upp í andhverfu sína.

Ég vil segja um þetta mál almennt að það er að sjálfsögðu ekkert að markmiðum þess eða tilgangi. Tilgangurinn er ágætur, „meningen er god nok“, eins og Danirnir munu segja. En það er álitamál hvort það er að nást fram sem í orði er sagt að sé einn megintilgangur þessa máls; að styrkja efnahagslegt og eiginlegt sjálfstæði Seðlabankans og búa betur um það, að efnahagsreikningur hans og eiginfjárstaða á hverjum tíma sé ekki áhyggjuefni gagnvart því að Seðlabankinn sé í fyrsta lagi sjálfstæður, það sé aldrei afkomuspursmál sem þurfi að hafa áhrif á hann eða samband hans við eiganda sinn, ríkið og þjóðina, sé ekki þannig að það séu nein bönd þar á milli sem strekki á ef Seðlabankinn ákveður að beita sér með tilteknum hætti. En það er líka mjög mikilvægt að Seðlabankinn sé svo efnahagslega sterkur að hann hiki ekki við ef því er að skipta að gera sjálfan sig upp með tapi á einhverju árabili ef hann nær fram markmiðum sínum um efnahagslegan stöðugleika með slíkum aðgerðum. Með öðrum orðum, það á ekki að ræða um starfsemi Seðlabanka þannig að markmiðið í sjálfu sé að hann rekinn með afgangi og sérstaklega ekki á hverju ári eða markmiðið sé endilega að hann græði á hverju ári til að geta borgað ríkissjóði arð. Það er að mínu mati mjög röng hugsun vegna þess að verkefni og hlutverk Seðlabankans er svo miklu, miklu mikilvægara en það að mynda kannski einhvern 1 eða 2 milljarða í rekstrarafgang á ári. Það eru smámunir í þjóðhagslegu samhengi borið saman við þá gríðarlegu hagsmuni sem eru fólgnir í því að Seðlabankinn sinni verkefnum sínum vel og sé ekki í neinum böndum hvað varðar eigin afkomu eða tengsl við eiganda sinn.

Það verður að segjast eins og er að vegferð þessa frumvarps er búin að vera nokkuð skrykkjótt og það er eiginlega visst umhugsunarefni. Það kom í ljós að frumvarpið sem lagt var fram í fyrravor gekk engan veginn upp, eins og við nokkrir urðum nú til að benda á. Smátt og smátt áttuðu aðstandendurnir sig á því að það gekk ekki upp. Meiningin var til dæmis, ef ég hef náð að skilja það rétt, sem auðvitað gat aldrei gengið upp, að Seðlabankinn eignfærði hjá sér loforð ríkisins um að leggja honum til aukið hlutafé ef á þyrfti að halda, teldi það inn í eiginfjárgrunn sinn en ríkið ætlaði ekki að bókfæra það sín megin. Hvernig er hægt að bjóða upp á slíkt? Nei, það er ekki hægt. Og nú er niðurstaðan komin að það verður gert hvorugu megin, samanber heimildargreinina sem hér var til afgreiðslu við 2. umr. fjárlaga og hina löngu atkvæðagreiðslu í gær. Þar er gripið á það ráð að búa um það loforð ríkisins að hlaupa undir bagga með Seðlabankanum í heimildargrein, það stendur þarna, bæði heimild ríkisins til að taka 52 milljarða að láni og hinum megin að greiða 52 milljarða til Seðlabankans ef hann rukkar eftir því. Seðlabankinn mun síðan sýna að sjálfsögðu í ársreikningi sínum og með skýringum að hann eigi þetta loforð útistandandi, geti kallað það inn ef á þarf að halda en ekki telja það til hins eiginlega eiginfjárgrunns. Það er að sjálfsögðu bót frá fyrri hugmynd.

Annað sem er merkilegt við vegferð frumvarpsins er hvað það kom seint fram, í ljósi þess að það er endurflutt, og menn höfðu haft allt vorið, sumarið og haustið til að fullbúa það í hendur þingsins á nýjan leik en engu að síður er það fyrst 19. nóvember, fyrir ekkert löngu síðan, sem efnahags- og viðskiptanefnd fær það loksins í hendur til að vinna með. Það var miður því ég held að það hafi sýnt sig í meðförum nefndarinnar að þetta var ekki alveg eins einfalt og rakið og ýmsir trúðu á eða vonuðu. Það var margt í þessu máli sem þurfti að skoða vel og þarf að skoða vel og hefði mátt skoða betur þrátt fyrir góðan vilja og að vissulega hafi vinna nefndarinnar upplýst málið talsvert. Fyrir mitt leyti munaði þar mestu um þegar við fengum loksins formann ríkisreikningsnefndar á fund sem vissi virkilega hvað hann var að tala um þegar kom að því hvernig fara skyldi með þessar færslur bæði ríkissjóðsmegin og seðlabankamegin. Þó er augljóslega ákveðin óvissa eftir og ég hef áfram mínar efasemdir um í öllu falli að þetta séu tímabærar breytingar. Fyrir því hef ég að minnsta kosti tvenn nokkuð efnisleg rök að ég tel. Þau fyrri eru einfaldlega sá ágalli málsins sem vakin er athygli á í nefndaráliti okkar í minni hlutanum að til þess að ná tölunum saman og ákvarða endanlega tekjufærsluna hjá ríkinu þarf að giska á hagnað Seðlabankans á þessu ári. Það þarf þá að byggja á einhvers konar áætlun um að Seðlabankinn verði gerður upp með 6 milljarða hagnaði. Við heyrðum skýringar formannsins að það væri ekki svo alvarlegt vegna þess að fjárlög séu nú alltaf ákveðin áætlun. Fjáraukalögin eiga að komast nær því. Þá á veruleikinn að vera farinn að birtast býsna skýrt og ef allt er með felldu þá ætti ekki að vera nema sem minnstur munur á fjáraukalögum sem afgreidd eru rétt undir lok árs og ríkisreikningi sem kemur á útmánuðum eða undir vor árið eftir. Vel að merkja, það er í fjáraukalögum sem tekjufærslan á sér stað. Hin ástæðan er sú, og það finnst mér að hafi of lítið verið skoðað af okkar hálfu eða rætt, að það er svo margt enn óuppgert sem tengist í sjálfu sér bæði stöðu Seðlabankans og ríkissjóðs og samskiptunum þar á milli. Þessi samskipti eru auðvitað óvenjuflókin um þessar mundir. Ríkið er með stór gjaldeyrislán sem það leggur inn í Seðlabankann og byggir upp forðann. Ríkið borgar vextina af lántökunni eða útgáfunni en Seðlabankinn ávaxtar forðann og þar er mikill vaxtamunur á milli sem óbreyttur lendir á ríkinu. Þetta er eitt. Í öðru lagi er það þannig að ríkið og Seðlabankinn eiga saman umtalsverðar eignir í eignaumsýslufélaginu ESÍ sem ákveðið var að halda utan um á einum stað og var að ég held hárrétt ákvörðun og skynsamleg. Það mætti segja að maður gæti vel hugsað sér betra fyrirkomulag en að þessi eignaumsýsla væri í skjóli af Seðlabankanum. Trúlega hefði verið best að ríkið hefði átt sjálfstætt eignaumsýslufélag sem það gat látið sjá um þetta gríðarlega mikilvæga verkefni, að passa upp á þær kröfur sem mynduðust við fall fjármálakerfisins, gæta þar hagsmuna ríkisins og eftir atvikum Seðlabankans og reyna að ná sem mestum verðmætum út úr því upp í hin gríðarlegu töp sem þegar eru orðin af þeim sökum. Uppgjörið á ESÍ hefur að sjálfsögðu á engan hátt farið fram og við vitum ekki enn hvernig því lýkur og hvernig ríkið og Seðlabankinn koma út úr því að lokum og hvort bókfærðar afskriftir munu nægja svo sem eins og hin stóra afskrift ríkissjóðs í ríkisreikningi 2008 þegar hátt í 200 milljarðar kr. voru afskrifaðir. Mögulega kemur þetta út í plús, mögulega á núlli, það er of snemmt að segja það er ég best veit. Í þriðja lagi mætti nefna þá staðreynd að við erum með fjármagnshöft. Það er gríðarlega afdrifaríkt og stórt verkefni hvernig tekst að vinda ofan af þeim og komast út úr þeim.

Margir virðast hafa farið að gefa sér sem fyrirliggjandi óumhrekjanlega staðreynd að ríkið eða íslenska þjóðarbúið komi út úr því með alveg bullandi gróða að létta af fjármagnshöftunum. Ég hef varað við slíku tali. Það er sýnd veiði en ekki gefin. Við skulum ekki gleyma hættunum sem geta verið fólgnar í því að eitthvað fari úrskeiðis í þeirri aðgerð. Hún gæti reynst íslenska þjóðarbúinu alveg gríðarlega kostnaðarsöm ef eitthvað ber út af. Það er auðvitað gáleysislegt tal og skánar ekki við að það sé hæstv. forsætisráðherra stundum sem talar þannig við þjóðina eins og það sé í hendi og sjálfgefið að við stórgræðum á þessu. Ég held að við hlytum að verða þá fyrsta þjóðin í sögunni, þótt vissulega hafi það sögulega stundum skeð að Ísland hafi grætt á hlutum sem flestir aðrir hafa tapað á eins og styrjöldum, en ég á eftir að sjá það endilega gerast hér. Menn verða að átta sig á því að það getur fallið til þjóðhagslegur kostnaður sem gæti orðið í stórum fjárhæðum ef eitthvað fer úrskeiðis. Lítils háttar gengismunur eða afskrift á einhverjum hluta af eignum þrotabúa eða erlendra handhafa krónueigna inni í hagkerfinu yrði fljótt að brenna upp á móti því ef t.d. verðbólgan færi verulega úr böndunum, ef gengisstöðugleikinn brysti, ef við stæðum frammi fyrir því aftur að þurfa að verja okkur fyrir fjármagnsflótta frá landinu. Mér líður stundum illa þegar ég heyri menn tala af þessari léttúð og þessu ábyrgðarleysi um stöðu lítillar þjóðar með sinn eigin gjaldmiðil sem á hátt á aðra landsframleiðslu læsta inni í hagkerfinu í eigu útlendinga. Það er dálítill handleggur að sjá fyrir sér hvernig slík staða verður leyst upp. Í ljósi þess að Seðlabankinn er þarna algerlega miðlægur, hann heldur utan um framkvæmd fjármagnshaftanna og hann mun verða gerandinn í aðgerðum til að aflétta þeim, skiptir miklu máli að staða hans sé eins traust og mögulegt er á þeim tíma. Þess vegna er dálítið mótsagnakennt að í ljósi alls þessa sé tímabært að fara að lækka eigið fé Seðlabankans jafnvel þótt við værum þeirrar skoðunar að við jafnvægisástand sé það óþarflega mikið. Ég er ekki að tala gegn því að þetta nýja fyrirkomulag geti ekki vel átt rétt á sér. Spurningin er meira: Er tímabært að fara út í þessar breytingar nú? Eru menn alveg vissir um að það líti vel út út á við, að menn sem eru að fylgjast með landinu taki eftir því í fréttum að Ísland sé að lækka eigið fé Seðlabankans sisvona núna? Kannski verða allir ánægðir með það ef það er útskýrt fyrir þeim en ég hefði a.m.k. talið að menn þyrftu að hugleiða það að fara varlega gagnvart því og vanda sig.

Varðandi frágang málsins eins og hann er uppsettur og hafandi kafað ofan í það og fengið þessa gesti til okkar o.s.frv., ætli ég segi þá ekki fyrir mitt leyti og svara þá spurningu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, að ég hef heldur betri tilfinningu fyrir því nú að þessi færslumáti sé tækur, það sé hægt að gera þetta eins og hér er lagt til. En ég er ekki sannfærður og mér líður ekki að öllu leyti vel með það, fyrir nú utan að þetta er svo skringilegt þegar maður fer yfir þetta allt í huga sínum að það þarf talsvert til að kyngja þessu, að allt í einu sé að myndast einhver gróði frá ríkinu því almennt leggjum við þann skilning í tekjufærslu að það sé hagnaður, það sé ávinningur.

Förum bara yfir hvað hefur gerst. Seðlabankinn fer á hausinn. Seðlabankinn verður gjaldþrota og hann tapar miklu meiru en öllu eigin fé sínu þannig að ríkið þarf að gefa út himinhátt skuldabréf og aðeins hluti af því bréfi dugar til að mynda jákvæða eiginfjárstöðu í Seðlabankanum, aðeins lítill hluti þess. 76–77 milljarðar töldu menn að yrðu að eiginlegu eigin fé út af skuldabréfi upp á 150 milljarða. Svo sokkinn var Seðlabankinn vegna veðkrafnanna sem urðu allt í einu ónýtar, bréfin á brettunum í kjallaranum sem lesa má um í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, sem urðu allt í einu að engu, bréfin sem þeir vissu ekkert hvað þeir áttu að gera við, er haft eftir einum starfsmanni í skýrslunni. Þau hlóðust upp á brettum í kjallaranum, ástarbréfin frægu. Jæja, hvað gerir ríkið þá? Það endurfjármagnar Seðlabankann með þeim aðferðum að kaupa af honum kröfurnar á gríðarlegu yfirverði og eftir stendur skuldabréf, ávöxtun, sem ríkið gefur út á sjálft sig og afhendir Seðlabankanum. Hann á það. Ríkið skuldar Seðlabankanum þessa peninga og á að borga þá skuld til baka. Fyrst var það kúlulán og síðan er núna verið að semja um að breyta því í fastar afborganir. Gott og vel. Þar með er komið eigið fé í Seðlabankann. En ríkið skuldar hjá sér hverja krónu og umtalsvert meira til. Svo koma menn í þriðju umferð og segja: Nú ætlum við að lækka eigið fé í Seðlabankanum. Jahá. Það stendur þá í 90 milljörðum í ársreikningi Seðlabankans en 77 í efnahagsreikningi ríkissjóðs. Það lítur sem sagt þannig út að ríkið ætli nú að sækja sér eigið fé út úr Seðlabankanum og færa sér til tekna. En hvað gerir það við peninginn? Hann fer í gegnum ríkissjóð og beint í að lækka skuldina um sömu fjárhæð. Engu að síður ætlar ríkið samt að tekjufæra þetta og þó er það þannig að með lækkun eigin fjárins lækkar eigið fé í Seðlabankanum sem ríkið á. Er þetta ekkert skrýtið? Jú, þetta er svolítið skrýtið. En eftir stendur aðeins það eitt að það var mismunur á eiginfjártölunni í ársreikningi Seðlabankans og bókfærðu eigin fé ríkisins. Út af fyrir sig er hægt, bókhaldslega séð, að segja að þegar sá munur er þurrkaður út og Seðlabankinn látinn færa fjármuni sem því nemur yfir til ríkisins geti ríkið tekjufært það en aðeins þann mun. Augljóslega gengi hitt ekki. Veikleikinn er hins vegar sá að það verða engin ný verðmæti til, ekki á nokkurn hátt. Þetta eru í raun og veru bara tveir vasar sömu megin á sama jakkanum þar sem er ríkissjóður og Seðlabankinn. Það er ekki eins og þjóðin hafi allt í einu orðið 26 milljörðum eða 21 milljarði ríkari, er það? Nei, því auðvitað er þetta bara bókhaldslegt. En sennilega, og ég ætla ekki að reyna að fara að hafa vitið fyrir mér vitrari mönnum í þessum fræðum, fær það staðist af þeirri ástæðu að þarna komi til ákveðin tekjufærsla.

Veikleikarnir eru líka þeir að þetta er ekki í samræmi við það sem enn sem komið er er almennt tíðkað þegar ríkið eignfærir hjá sér eignir í öðrum félögum og fyrirtækjum. Þar er meðferðin talsvert önnur. Reyndar hafa þau mál ekki verið í nógu góðu horfi, sérstaklega vegna þess að ríkið hefur trassað að uppfæra þá eignarhluti sína. Það væri auðvitað eðlilegast að gera það árlega. Það er mjög sérkennilegt að verðmæti verðmætra fyrirtækja í eigu ríkisins er í reikningum ríkisins fært langt undir bókfærðu eigin fé viðkomandi aðila. Nærtækt dæmi er Landsbankinn sem enn er færður á upphaflegu nafnverði inngreidds hlutafjár plús það sem ríkið fékk án endurgjalds í fyrra, 18% í viðbót. En hvernig var það þá fært til tekna hjá ríkinu? Á sama verði og innborgaða nafnféð á sínum tíma. Eignarhluturinn var ekki tekinn úr eiginfjárígildisvirði eða öðru slíku, nei. Sama má segja um Landsvirkjun. Eignarhluturinn er færður langt undir raunverulegu verðmæti Landsvirkjunar í dag, náttúrlega himinhrópandi langt undir því ef reynt er að meta verðmæti fyrirtækisins. Það vantar sennilega eina 200 milljarða upp á að bara eigið fé Landsvirkjunar, eða a.m.k. 150 milljarða, sé fært með réttum hætti inn í efnahag ríkisins. (FSigurj: …taka þetta út.) Já, þá kvikna hugmyndirnar, nú hafa sennilega stjórnarliðar séð ljósið, svona reddum við þessu næstu árin. En þá verður einhvers staðar vonandi á lífi maður sem bendir ykkur á að þið séuð að innleysa hagnað sem kom ekki endilega til á ykkar vakt, þótt þið eignið ykkur allt gott sem gerst hefur á Íslandi frá landnámi, það hafi allt gerst eftir maímánuð í fyrra. Ef maður hlustar á hv. formann fjárlaganefndar tala er eins og öll gæfa Íslands frá upphafi Íslandsbyggðar hafi komið til sögunnar eftir kosningarnar á Íslandi í fyrra, en það er nú ekki. (ÁPÁ: Messías kom.) Ég er að ræða þessa hluti bara eins og þeir eru. Ég velti þessu af og til upp og spurðist fyrir um þetta í ráðuneytinu á minni tíð þar, m.a. vegna þess að mér fannst blóðugt að horfa á skuldir Íslands hlaðast upp í reikningunum og við að kljást við lánsmatsfyrirtæki og aðra slíka aðila sem bentu á háar skuldatölur, sérstaklega brúttóskuldirnar. Við reyndum að benda á nettóstöðuna. Ríkið á miklar eignir á móti en ég vissi að þær eignir voru vantaldar og það stórlega. Auðvitað væri staðan betri út á við og inn á við ef við sýndum rétt í bókum ríkisins raunverulegt verðmæti þeirra eigna sem þjóðin á þó þannig saman í verðmætum fyrirtækjum sem eiga að standa fyrir sínu. Að sjálfsögðu á að stefna að því að færa þær færslur á eðlilegan grunn. Nú hef ég skilið það þannig að meiningin sé að fara í slíkt verk þegar ný lög um opinber fjármál verða komin til sögunnar og er það vel. Hafandi sagt það er að sjálfsögðu rétt og skylt að mæla þau varnaðarorð að ég er ekki endilega að mæla með því að menn gangi mjög langt í þessum efnum eða fari glannalega í færslur. Það er betra fyrir ríkið að færa þær með varfærnari hætti en hitt, það væri neyðarlegt ef menn þyrftu að fara að taka inn á ríkið töp beinlínis vegna þess að einhverjir eignarhlutir hefðu ekki reynst eins verðmætir og ríkið hefði þegar verið búið að færa þá í bækur sínar. Þess vegna var gamla reglan ekkert að öllu leyti fráleit sem var viðmiðunarregla, samanber það sem Gunnar H. Hall, formaður ríkisreikningsnefndar, upplýsti okkur um að miða við 80% af eigin fé eða verðmæti fyrirtækja.

Herra forseti. Að lokum nokkur orð um tekjufærsluna. Við segjum í nefndaráliti minni hlutans, og að því standa ásamt mér hv. þm. Árni Páll Árnason og Guðmundur Steingrímsson, að sá asi sem er á þessari tekjufærslu — niðurstaðan varð 21 milljarður eða rétt tæpur kannski af þessum 26 — sé ekki mjög trúverðugur. Hann er það ekki vegna þess að engin þörf er á því að gera þetta nákvæmlega núna. Það er bara ekki þannig. Það mátti setja þessi nýju lög, það mátti hefja framkvæmdina á þeim grundvelli og síðan gátu ríkið og Seðlabankinn þegar það var tímabært látið aðgerðina sem slíka fara fram, að lækka eigið fé, færa það í gegnum ríkissjóð og borga niður skuldabréf. Munurinn er sá að ef menn hefðu gert þetta t.d. seint á næsta ári þá hefði í fyrsta lagi endanleg afkoma Seðlabankans legið ljós fyrir, þá þyrfti ekki áætlun lengur, þá er komin tala. Þá hefðu menn verið búnir að móta reglurnar um nýju eiginfjárviðmiðin og prufukeyra þær. Hvernig kemur það út og hvað þarf eigið fé Seðlabankans að vera hátt til að mæta þeim nýju viðmiðum sómasamlega? Nýju viðmiðin eiga meðal annars að meta ekki bara þörf Seðlabankans fyrir rekstrarfé heldur líka óvissu sem hann telur vera framan við sig og fleiri slíka þætti og horfa svo til þess hvert eigið fé þarf að vera til að okkur líði vel miðað við það sem við erum með í höndunum; rekstrarkostnað bankans, óvissuna sem getur verið að einhverju leyti í eignasafni hans og viðskiptum og svo í þriðja lagi mögulega óvissu sem hann þarf að takast á við séð fram á veginn. Væru menn síðan komnir með niðurstöðu í þetta, bankaráð búið að samþykkja nýju viðmiðanirnar hefði mér fundist tímabært að fara í tekjufærslu, ef einhver verður, ef menn kæmust að þeirri niðurstöðu að kannski ætti að lækka eigið fé um 15 milljarða eða 26 eða þess vegna 33 milljarða. Ég veit ekkert hvað hefði hugsanlega getað komið út úr því. Það væri augljóslega miklu trúverðugri framgangsmáti að láta tekjufærsluna koma þegar þetta er allt komið á sinn stað.

Herra forseti. Af hverju liggur mönnum svona á? Getur verið, eigum við ekki bara að ræða um það eins og það er, að menn hafi rokið af stað með þetta mál í fyrra í ótta sínum um að annars kynni að verða halli á rekstri ríkisins á árinu 2014? Menn yrðu að finna einhvers staðar búhnykk til að eiga inn í bókhaldið til að vera örugglega með borð fyrir báru þannig að það yrði ekki halli á ríkissjóði? Svo urðu vissir búhnykkir, menn fengu háu arðgreiðsluna frá Landsbankanum og vissulega hafa tekjustofnar ríkisins gefið heldur betur af sér en áætlanir gerðu ráð fyrir á árinu. Það er engin hætta á ferðum í þeim efnum. Ég er sæmilega sáttur við að þær niðurstöðutölur sem núna er verið að sýna í fjárlagafrumvarpinu verða aldrei langt frá lagi, ekki nema ríkisreikningsnefnd ákveði að færa á ríkið einhver töp sem menn hafa ekki enn horfst í augu við, sem alltaf getur gerst, hún gæti t.d. krafist þess að sett yrði inn hærri tala vegna afskrifta skattkrafna eða eitthvað því um líkt. En segjum að við séum sæmilega sloppin með það, af hverju þá þessi asi? Var það til að eiga líka fyrir 16 milljörðunum, 9 milljörðunum í skuldaniðurfærsluna? Er skýringin kannski að einhvers staðar var þrýstingur á það að drífa málið í gegn á þessu ári þannig að hægt væri að bókfæra þessa tekjufærslu á árinu 2014? Það er ekki nógu góð og gild ástæða. Hún er ekki tæk og ég undrast hana líka pólitískt, ef ég má leyfa mér að segja það. Ég er dálítið hissa að fjármálaráðherra skuli ekki bíða með þetta, í ljósi þess að það horfir alveg bærilega með að ríkið verði gert upp vel réttum megin við strikið á þessu ári, hann vilji ekki eiga það uppi í erminni. Og það skyldi nú ekki fara svo, því miður herra forseti, að það sé frekar líklegra að þörf verði á því á árinu 2015 en á árinu 2014 af ýmsum ástæðum. Hæstv. ríkisstjórn hefur sett þungar byrðar á ríkissjóð, skuldaniðurfærsluna o.fl. Það er verið að stefna að því að loka fjárlögunum með örfárra milljarða afgangi sem er innan skekkjumarka. Það eru því miður vissar vísbendingar á lofti um það að menn hafi ofmetið viðganginn í hagkerfinu, að hagvöxtur sé mun daufari á þessu ári en menn gerðu ráð fyrir framan af ári og hafa spáð. Mælingar Hagstofunnar sem Hagstofan segist standa við, jafnvel þó að Seðlabankinn sé hissa á þeim, eru því miður bara upp á 0,5% vöxt landsframleiðslu á þessu ári á fyrstu níu mánuðum. Það þarf að vera meiri firnagangurinn í hagkerfinu á síðustu þremur mánuðum ef það á að tosa meðaltalið upp í 2,7%. Það er varla fræðilega mögulegt. Menn verða þá að veðja á að það séu einhverjar mælingaskekkjur eða eitthvað sem menn eiga eftir að leiðrétta ef þeir eiga að trúa því að hagvöxturinn verði þetta þróttmikill. Hvað segir það okkur? Það segir okkur að horfurnar eru kannski ekki eins góðar sem eru framreiknaðar inn í fjárlagafrumvarp næsta árs og menn voru að vona og vildu trúa ef hagvöxturinn á þessu ári er svona miklu daufari. Jafnvel þó að hagvöxturinn á árinu 2015 yrði sæmilegur yrði það minna hagkerfi sem yrði að vaxa. Það sem menn gleyma svo oft í þessum efnum er að menn taka hagvöxt liðins árs með sér og hann skiptir öllu máli um stærð hagkerfisins. Hvort það svo vex um 0,5% eða 1,5% er það grunnurinn sem þú tekur með þér sem hefur allt að segja um það hvernig hagstærðirnar eru þegar lagt er af stað inn í nýtt ár.

Ég ætla ekki að fara að gefa hæstv. núverandi fjármála- og efnahagsráðherra ráð eða stjórnarmeirihlutanum enda bý ég við það að vera notaður sem mikil öfug sönnun í innbyrðis illdeilum íhaldsdrengja þessa dagana, þar sem það þykir nú hvað svakalegast að Guðlaugur Þór Þórðarson skuli hafa notað mig sem vitni í deilum sínum við útvarpið, ekki ætlað mér til tekna eða hróss held ég í þeim leðjuslag. (Gripið fram í: …leiðarljós.) Ég hef aldrei ætlað mér þá dul að vera ráðgjafi sem líklegt sé að sjálfstæðismenn fylki sér á bak við. En það ætla ég að segja hér að það hefði freistað mín mjög sem fjármálaráðherra að bíða með þessa tekjufærslu og eiga hana upp á að hlaupa á næsta ári, ef hún á að eiga sér stað á annað borð. Það er til dæmis ekki heldur hægt að treysta endilega á jafn háa arðgreiðslu frá Landsbankanum og fleira þegar þar að kemur.

Stofnfjáraukningarloforðið sem Alþingi var að afgreiða á dögunum, ég segi svipað um það. Það getur gengið að vera með þetta svona í heimildargrein en engu að síður er þetta dálítið sérstakt. Þessa heimildargrein þarf að endurvekja í hverjum einustu fjárlögum héðan í frá og sjálfsagt á báðar hliðar eða a.m.k. svo lengi sem ríkið á ekki þetta reiðufé klárt til að afhenda þá bara Seðlabankanum seðla ef hann þarf 52 milljarða (FSigurj: Bera í bakkafullan lækinn.) og þorir ekki öðru en að hafa heimild hinum megin til að taka þá peninga að láni. Það er nú öll snilldin í þessu. Ef eitthvað bjátar á núna eða á næsta ári eða á næstu missirum ef afkoma ríkisins verður gerbreytt er það það eina sem gerist ef Seðlabankinn lendir aftur í vanda og þarf á stuðningi að halda að ríkið verður að taka lán til að leggja inn í hann. Þannig er um þetta búið í frumvörpunum ykkar. Það þýðir ekkert að hrista hausinn. (FSigurj: Það þarf ekki.) Já, það þýðir bara ekki að hrista hausinn. Það er þannig sem þið gangið frá þessu. Það var sett inn lántökuheimild og greiðsluheimild á tvær hliðar í lántökugrein og 6. gr. fjárlaga. Þannig var það. Ég skoðaði þetta í atkvæðagreiðslunni og veit að það er nákvæmlega þannig.(Forseti hringir.)

Herra forseti. Til að gera langt mál stutt, sem núna er hægt, þá treystir minni hlutinn sér ekki til að standa að afgreiðslu þessa máls og við hljótum að lýsa ábyrgð af því á meiri hlutann.