144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

Seðlabanki Íslands.

390. mál
[20:54]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Frosti Sigurjónsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessi svör. Ég vil velta upp aftur þessu með traustu stöðuna, ég held að okkur sé nú annt um að Seðlabankinn sé traustur. Ég fór og náði í skýrslu sem hv. þingmaður hefur eflaust lesið, hún er frá BIS-stofnuninni, Bank for International Settlements og fjallar um Central bank finances, meðan ég var að undirbúa mig undir að fjalla um þetta frumvarp. Þar stendur í inngangsorðum, ég kannski þýði þetta á íslensku, með leyfi forseta:

Seðlabankar eru ekki viðskiptabankar. Þeir eru ekki sérstaklega að reyna að hagnast og eru ekki bundnir sömu fjármálalegu skilyrðum og venjuleg einkafyrirtæki. Í raun og veru þýðir þetta að seðlabankar gætu tapað gríðarlegum peningum, alveg þangað til eigið fé þeirra er orðið mjög neikvætt, og samt mundi það ekki trufla virkni þeirra á nokkurn einasta hátt, vegna þess að þeir geta búið til peninga.

Það er í rauninni eina ástæðan fyrir því að við viljum hafa eigið fé jákvætt í Seðlabankanum, svo að fólki sem skilur ekki þá staðreynd að seðlabankar geta búið til peninga líði ekki illa yfir þessu. Þá er spurning: Hvað vill ríkissjóður borga mikla vexti fyrir það að halda uppi einhverri leikmynd um sterkt eigið fé í stofnun sem þarf alls ekki sterkt eigið fé? Hvað erum við til í að borga fyrir það? Eða viljum við bara útskýra fyrir fólki það sem greinilega er á allra vitorði hjá Bank of International Settlements, að hér er ekki skilyrði að hafa sterkt eiginfjárhlutfall í Seðlabankanum svo hann geti sinnt hlutverki sínu. Hann getur prentað íslenskar krónur til að mæta öllum kröfum í íslenskum krónum og hann getur ekki orðið gjaldþrota í raun og veru. Þess vegna þykir mér svolítið sárt að heyra að hér hafi ríkissjóður skuldsett sig gríðarlega til þess að lána Seðlabankanum peninga, sjálfri uppsprettu peningamagnsins. Það finnst mér mjög einkennilegt og boða skort á skilningi á því hvernig þetta virkar.