144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

mat á umhverfisáhrifum.

53. mál
[21:51]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta svar er tæpast fullnægjandi. Það dugar ekki að segja að almennt sé ólíklegt að um matsskyldar framkvæmdir verði að ræða því að við þurfum einmitt að gæta að því að þessar framkvæmdir eru sannarlega ekki allar minni háttar, það liggur fyrir. Það kann að vera að einhverjar af þessum framkvæmdum, eins og fram kemur í frumvarpinu, verði þeirrar gerðar að þær geti falið í sér talsverð umhverfisáhrif. Það er nákvæmlega það sem frumvarpið snýst um, þ.e. að gæta að þeim framkvæmdum í C-flokki þar sem um töluverð umhverfisáhrif getur verið að ræða.

Ég vil líka árétta að í svari hv. þingmanns við spurningu minni staðfestir hann að um sé að ræða tvöfalt kerfi þegar sveitarfélögin sjái um þessa ákvörðun til að tryggja jafnræði með borgurum landsins en til þess að tryggja að sveitarfélögin séu jafn vel í stakk búin þurfi á eftirliti, utanumhaldi og leiðbeiningum Skipulagsstofnunar að halda. Hér er verið að búa til tvöfalt kerfi sem er mjög umhendis að gera.

Ég vil eiginlega fullyrða það að hæstv. ráðherra hefur ekki hugsað málið til enda þegar hann leggur til þessa nálgun og vil spyrja hann hreint út: Telur hann að þetta sé hafið yfir vafa? Telur hann að komi til greina að taka málið inn í nefnd milli 2. og 3. umr. til þess að tryggja að stjórnsýslan verði straumlínulagaðri? Telur hann hafið yfir vafa að þetta sé til góðs og hér sé ekki um tvöfalt kerfi að ræða?