144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

mat á umhverfisáhrifum.

53. mál
[21:53]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Á þeim átta árum sem ég hef átt sæti á Alþingi hef ég áttað mig á að ekkert þeirra mála sem við afgreiðum er hafið yfir vafa. Mér finnst ósanngjarnt að taka það fram hér að ég hafi ekki svarað spurningunni nægjanlega. Ég svaraði henni algjörlega eftir bestu getu og rökstuddi mál mitt, ekki bara þannig að þessar framkvæmdir væru almennt ólíklegar til þess að vera matsskyldar. Við tökum það sérstaklega fram að við gerum okkur fulla grein fyrir því að sumar þessara ákvarðana þarfnast meiri og stærri umfjöllunar þó að það sé frekar í undantekningartilvikum en hitt.

Ég held að þingmaðurinn ætti ekki að óttast að málsmeðferðin verði síðri hjá sveitarfélögunum en hjá Skipulagsstofnun þegar við veitum Skipulagsstofnun svona mikla eftirlitsskyldu. Við erum í rauninni að gera þetta skilvirkara og skýrara en um leið að tryggja að allar þær ákvarðanir sem falla í þennan flokk og þurfa að vera matsskyldar fái nægilega umfjöllun. Ég er þeirra skoðunar að það sé rækilega útskýrt. Ég gerði það í ræðu minni áðan sem og í svari mínu og tel að þetta mál þarfnist ekki frekari umræðu.