144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

mat á umhverfisáhrifum.

53. mál
[21:55]
Horfa

Frsm. minni hluta um.- og samgn. (Róbert Marshall) (Bf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu frá minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar, sem fjallar einmitt um efnisatriðið í orðaskiptum hv. þm. Svandísar Svavarsdóttur og hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar. Minni hlutinn er efnislega samþykkur meginatriðum þessa máls en gerir athugasemd við einn þátt sem er þess eðlis að rétt þykir að gera grein fyrir honum í sérstöku áliti og leggja til breytingu á frumvarpinu.

Í 4. gr. frumvarpsins er lagt til að sveitarfélög taki ákvarðanir um matsskyldu framkvæmda sem falla í C-flokk 1. viðauka nema um þær framkvæmdir sem þarfnast leyfi Mannvirkjastofnunar. Í fyrri drögum frumvarpsins var verkefnið hjá Skipulagsstofnun en stofnunin tekur samkvæmt gildandi lögum allar matsskylduákvarðanir og er auk þess með frumvarpinu falið að taka aðrar matsskylduákvarðanir en þær sem sveitarfélögin taka. Minni hlutinn bendir á að sveitarfélögin séu misvel í stakk búin til að sinna þessu hlutverki. Enginn vafi er á því að stærstu sveitarfélögin, eins og Reykjavík, geta vel sinnt þessu hlutverki á faglegan hátt en það kann að vera mun erfiðara fyrir minni sveitarfélög þar sem stjórnsýsla þeirra er fámennari og sérhæfing minni. Vakna þá upp spurningar um jafnræði og með hversu samræmdum hætti sveitarfélögin muni sinna þessu hlutverki. Einnig getur hæglega komið upp sú staða að sveitarfélögin séu framkvæmdaraðilar og taki því matsskylduákvarðanir varðandi eigin framkvæmdir. Eru sveitarfélögin þá með á sömu hendi ákvörðun um mat á umhverfisáhrifum, framkvæmdaleyfi og skipulagsvald.

Þá er rétt að benda á að þær framkvæmdir sem taldar eru upp í C-flokki 1. viðauka eru ekki allar minni háttar og vel kann að vera að einhverjar þeirra teljist fela í sér umtalsverð umhverfisáhrif. Því er mikilvægt að vanda vinnu við matsskylduákvarðanir. Hjá Skipulagsstofnun hefur orðið til mikil sérþekking á málaflokknum sem rétt er að nýta áfram. Þá hefur minni hlutinn einnig efasemdir um að fyrirkomulagið sé til einföldunar þar sem Skipulagsstofnun þarf að hafa eftirlit með ákvörðunum sveitarfélaganna og að verkefninu verði sinnt á samræmdan hátt. Má vel vera að þetta kalli á aukna vinnu og aukinn kostnað bæði hjá sveitarfélögunum og Skipulagsstofnun, en það á eftir að koma í ljós.

Þá bendir minni hlutinn einnig á að tilgangur frumvarpsins sé að bregðast við athugasemdum ESA sem bárust árið 2010. Þær athugasemdir lutu ekki að stjórnsýslu matsskylduákvarðana og því er ekki ástæða til að breyta því fyrirkomulagi í ljósi athugasemdanna líkt og lagt er til í frumvarpinu.

Í ljósi alls framangreinds telur minni hlutinn ekki rétt að sinni að fela sveitarfélögunum að taka matsskylduákvarðanir vegna framkvæmda í C-flokki 1. viðauka og leggur til breytingu þess efnis að hlutverkið verði enn sem komið er hjá Skipulagsstofnun.

Við í minni hlutanum leggjum því til breytingartillögu sem fjallar um þetta tiltekna atriði sem hefur að okkar mati ekki fengist nægilega haldgóður rökstuðningur fyrir hvers vegna er verið að breyta. Ég nefni þá sérstaklega þau atriði sem fram komu í andsvari hv. þm. Svandísar Svavarsdóttur, þ.e. mismunandi stærðir sveitarfélaga. Sum þeirra munu auðveldlega geta ráðið við að taka þessar ákvarðanir og hafa til þess mannafla og þekkingu, önnur ekki. Eftir sem áður er það fyrirhöfn hjá Skipulagsstofnun að hafa eftirlit með slíku þannig að það er ekkert verið að minnka stjórnsýsluna að því leytinu til heldur fer hún fram á tveimur stöðum í stað þess að fara fram á einum stað. Stundum getur það komið fyrir að sveitarfélögin eru sjálf framkvæmdaraðilar og verða þau þess vegna komin hringinn í kringum borðið í þessum efnum.

Í fjórða lagi er hér verið að bregðast við áríðandi athugasemdum ESA og allir í nefndinni eru sammála um að bregðast skuli við þeim en ekkert í þeim athugasemdum laut að því að fela sveitarfélögunum þetta verkefni. Það er pólitísk ákvörðun, tekin í ráðuneytinu og hefur að því er virðist stuðning meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar án þess að því fylgi, að okkar mati, nægilega haldgóður rökstuðningur.

Við leggjum til að þetta frumvarp verði samþykkt með breytingu sem fylgir í nefndarálitinu sem ég hef hér gert grein fyrir. Undir það skrifa sá sem hér stendur, hv. þingmenn Katrín Júlíusdóttir, Helgi Hrafn Gunnarsson og Svandís Svavarsdóttir.