144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

framhaldsskólar.

214. mál
[22:10]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar. Hér er um að ræða frumvarp sem felur í sér breytingar á ákvæðum gildandi laga varðandi nokkur atriði, þ.e. rétt náms- og starfsráðgjafa til að sækja um launað námsorlof, viðurkenningu á húsnæði einkarekinna framhaldsskóla, gjaldtökuheimild vegna rafrænna námsgagna, afhendingu byggingarlóða undir framhaldsskóla án kvaða og gjalda og setningu reglugerðar um starfstíma framhaldsskóla.

Fjölmargar umsagnir bárust og nefndin fékk á sinn fund allnokkra gesti vegna málsins. Við meðferðina kom fram nokkur gagnrýni á ákvæði 4. gr. Var bent á að breytingin fæli í sér að skólum væri gefin heimild til að taka gjald af nemendum fyrir rafrænt námsefni. Meiri hlutinn vill í þessu sambandi að það komi fram að um er að ræða tilraunaverkefni í takmarkaðan tíma, bundið við tilteknar námsgreinar og að með verkefninu sé verið að leita leiða til að lækka kostnað nemenda. Talið er að þetta geti falið í sér lækkun á bókakostnaði um allt að 30%.

Við leggjum til tvær breytingar lagatæknilegs eðlis sem greindar eru í þessu nefndaráliti. Undir það skrifa sú sem hér stendur, Líneik Anna Sævarsdóttir, Elsa Lára Arnardóttir, Jóhanna María Sigmundsdóttir og Vilhjálmur Árnason.