144. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2014.

fangaflutningar Bandaríkjanna.

[10:34]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Nú er komin út skýrsla öldungadeildar Bandaríkjaþings um forkastanlega meðferð bandarísku leyniþjónustunnar á saklausu fólki. Af þeirri skýrslu má ráða að reiknað er með að Ísland hafi verið nýtt til millilendinga með saklaust fólk. Við vitum að frá og með sumri 2007 var mörkuð sú stefna að leita í flugvélum sem grunaðar voru um að vera með innan borðs fanga en lítið er vitað um tímabilið frá 2001–2007.

Ég vil þess vegna spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort skýrslan kalli ekki á það að Ísland geri hreint fyrir sínum dyrum í þessu efni og að við grennslumst fyrir um það til fulls hvað gerðist á þeim árum. Voru gefin fyrirheit til leyniþjónustu Bandaríkjanna um að hún gæti í friði millilent á Íslandi, nýtt flugvelli og aðstöðu á Íslandi til millilendinga? Ef svo er, hverjir gáfu þau fyrirheit? Voru það ráðherrarnir tveir sem ákváðu stuðninginn við Íraksstríðið, var það hluti af þeirri ákvörðunartöku? Eða með hvaða hætti var komið til leyniþjónustunnar fyrirheiti um að hún gæti í friði lent hér og nýtt aðstöðu á landinu?

Ég spyr líka, vegna þess að vel kann að vera að ekki sé upplýsingar að finna í skjalasöfnunum í ráðuneytunum. Er hæstv. forsætisráðherra tilbúinn að fara með okkur í þann leiðangur að fara í opna rannsókn á þessu máli og grennslast fyrir til fulls nákvæmlega hvernig atvikum var hagað í þessu máli, hver gaf þessi fyrirheit, hvar og hvernig?