144. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2014.

umdæmi lögreglunnar á Höfn.

[10:41]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Þetta hljómar eins og spurning til dómsmálaráðherra en það vill svo vel til að ég þekki málið ágætlega og get svarað fyrir hann þó að embætti dómsmálaráðherra sé ekki lengur til staðar. Eins og hv. þingmaður nefndi var gefin út reglugerð um umdæmamörk lögregluumdæma. Þessi reglugerð snerist hins vegar ekki bara um staðsetningu lögreglunnar á Höfn eða hvaða lögregluumdæmi hún tilheyrði. Þarna var fjallað um allt landið. Þetta var með öðrum orðum aðeins einn af fjölmörgum stöðum sem samkvæmt reglugerðinni heyra undir þessi nýju sameinuðu stærri lögregluumdæmi. Það að telja að það hefði þurft að taka þetta sérstaklega út og málið hafi allt snúist um það er ekki rétt. Þarna voru nokkur álitamál um hvernig best væri að sameina lögregluumdæmi. Í þeirri vinnu sem staðið hefur í allmarga mánuði hefur verið haft samráð við fólk, ekki bara á Höfn í Hornafirði heldur um allt land. Hins vegar beið það ráðherra að meta hvernig væri á endanum best að hafa þessa reglugerð.

Þó er rétt að geta þess að alveg frá upphafi, frá því að hugmyndir eða áform um sameiningu lögregluumdæma voru fyrst kynntar, var gert ráð fyrir því að lögreglan á Höfn tilheyrði umdæmi lögreglunnar á Austurlandi en þó þeim möguleika haldið opnum að lögreglan á Höfn færðist undir Suðurland. Þeim möguleika er enn haldið opnum. Hins vegar var staðan sú að lögreglan á Austurlandi var ekki búin að fá þann styrk sem til var ætlast með þessum stærri og sameinuðu lögregluumdæmum og því var ekki forsvaranlegt á þeim tímapunkti að (Forseti hringir.) ráðast í þessa tilfæringu sem var hugmynd um en ekki áform.