144. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2014.

umdæmi lögreglunnar á Höfn.

[10:45]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Voða er þetta undarlegt upplegg og þeim mun undarlegri reiði sem birtist hjá hv. þingmanni. Í fyrsta lagi tel ég rétt að ítreka það sem fram kom áðan, það hefur greinilega gætt ýmiss misskilnings varðandi lögregluna á Höfn í Hornafirði. Maður sér það hvað eftir annað, bæði í umræðum á vettvangi stjórnmálanna og í fjölmiðlum, að verið sé að færa lögregluna á Höfn í Hornafirði frá umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi og austur. Það er alls ekki svo. Lögreglan á Höfn í Hornafirði er áfram þar sem hún hefur verið með lögreglunni á Austurlandi og því er áfram haldið opnu, eins og hefur verið til skoðunar, að embættið færist yfir á Suðurland. Það gefur hv. þingmanni ekki tilefni til að æsa sig með þessum hætti.

Og ekki heldur samráð við aðila vinnumarkaðarins. Það á sér stað samráð á vegum stjórnvalda við aðila vinnumarkaðarins í einum 70 eða 80 nefndum og ráðum og auk þess höfum við ráðherrar fundað nokkrum sinnum með forustumönnum þessara samtaka svoleiðis að hv. þingmaður þarf ekki að vera svona æstur í miðjum jólamánuðinum.