144. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2014.

hækkun bóta lífeyrisþega.

[10:52]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við höfum síðustu daga fjallað hér um fjárlögin og ýmsa þætti þar er lúta að þeim sem standa höllum fæti í samfélaginu, m.a. öryrkjum. Komið hafa áskoranir til ríkisstjórnarinnar og okkar allra sem þingmanna um að draga til baka fyrirhugaða lækkun almannatrygginga þar sem í frumvarpi til fjárlaga var gert ráð fyrir 3,5% hækkun en ákveðið að vegna nýrrar þjóðhagsspár yrði hún lækkuð í 3%. Við vitum öll að það eru ekki háar fjárhæðir sem þetta fólk hefur úr að spila. Í neysluviðmiðum velferðarráðuneytisins eru upphæðirnar allt aðrar en þær 187 þúsund sem margur hefur úr að spila, þær eru í kringum 400 þúsund, held ég.

Við höfum líka gagnrýnt ítrekað við fjárlagaumræðuna aukna greiðsluþátttöku fólks í heilbrigðisþjónustu, lyfjakostnaði og fleiru því um líku. Þetta fólk, sem hefur jafnvel ekkert val um að taka lyf, á ekki neitt eftir og hefur jafnvel þurft að neita sér um þjónustu á sjúkrahúsunum.

Á dögunum var frétt í Ríkisútvarpinu þar sem hæstv. félagsmálaráðherra var spurð hvort hlustað yrði á Öryrkjabandalagið. Hún sagði, með leyfi forseta:

„Það er alltaf mikilvægt að hlusta á það sem einstaka hópar eru að segja og sérstaklega þeir sem hafa lítið á milli handanna.“

Hún vísaði svo til þess að verðlagsbreytingarnar yrðu teknar fyrir á milli 2. og 3.umr. fjárlaga.

Ég var á fundi fjárlaganefndar í morgun. Þar kom ekki fram að þessu yrði breytt (Forseti hringir.) og því spyr ég hæstv. ráðherra: Er einhver von um að þessu verði breytt?