144. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2014.

hækkun bóta lífeyrisþega.

[10:55]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina og ítreka það sem ég hef sagt að ég tel að sjálfsögðu mikilvægt að við hlustum á þær athugasemdir sem koma frá einstökum hópum og ekki hvað síst þeim sem hafa minnst á milli handanna.

Það sem við höfum verið að gera frá því að þessi ríkisstjórn tók við völdum er að setja aukna fjármuni inn í almannatryggingakerfið. Miðað við þær áætlanir sem eru núna, um 3% hækkun bótanna á næsta ári og 3,6% á þessu ári, þá er verið að hækka bætur um 6,7% á sama tíma og verðbólga hefur hækkað um 5%. Ef horft er síðan á framlög í heild í almannatryggingakerfið þá erum við búin að hækka greiðslu félagslegra bóta um 13% og til lífeyristrygginga um 21% á þessum tveimur árum. Það hefur kannski ekki farið mikið fyrir þeirri umræðu í þinginu að það er verið að bæta töluverðum fjármunum núna við 2. umr., sem við vorum að samþykkja, inn í greiðsluþátttökukerfið. Það snýr að lyfjunum. Það er líka verið að gera breytingar á skattkerfinu, sem snúa að skattlagningu á lyfjum. Auk þess fara nokkrir tugir milljóna sérstaklega í hækkun á tekjuviðmiði sem snýr að fólki sem hefur þurft að leita eftir fjárhagslegri aðstoð vegna lyfjakaupa eða annarra hjálpartækja. Þarna er hugað að því.

Við höfum líka gert breytingar á barnabótunum. Núna kemur sú viðbót inn í húsaleigubótakerfið að tryggt verður að þeir fjármunir fari einmitt til þeirra fjölskyldna sem hafa minnst á milli handanna með því að breyta því hvar tekjuskerðingin kemur inn og upphæðirnar eru líka hækkaðar. Það sem við erum núna að undirbúa snýr að húsaleigubótunum á næsta ári og verður hugað sérstaklega að því að þær komi sem best til móts við þá sem hafa allra minnst á milli handanna.