144. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2014.

hækkun bóta lífeyrisþega.

[10:58]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka enn á ný þingmanninum fyrirspurnina. Ég veit að hún er öflugur bandamaður í því að tryggja að við getum haldið vel utan um þá sem hafa minnst á milli handanna í íslensku samfélagi.

Við erum núna með vinnu í gangi í ráðuneytinu undir stjórn hv. þm. Péturs Blöndals um heildarendurskoðun á almannatryggingakerfinu. Þar erum við komin ansi langt með tillögur sem snúa að einföldun á kerfinu, hugmyndir varðandi aukinn sveigjanleika við starfslok. Ég er að bíða eftir því að menn komi með tillögur sem snúa að þeim breytingum gagnvart öryrkjum að fara úr örorkumati yfir í starfsgetumat. Ég tel að þær ættu að skila sér fljótlega eftir áramót og á þeim munum við að sjálfsögðu byggja áætlanagerð okkar í framhaldinu.

Ég vil líka nefna að við erum að hefja mikið samráðsferli við sveitarfélögin um uppbyggingu á félagslegu húsnæði. Sá kostnaður hvílir (Forseti hringir.) hvað þyngst á þeim sem hafa minnst á milli handanna. Ég tel mjög mikilvægt að við náum saman um það hvernig við ætlum að byggja húsnæðiskerfið upp á næstu árum.