144. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2014.

endurupptaka mála.

[11:03]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þann velvilja sem hún sýnir þessu sjónarmiði sem almennu sjónarmiði og fagna því ef væntanlegt er mál inn í þingið frá ríkisstjórninni um slíka almenna heimild. Það þyrfti þá bara að hraða því. Ég tel að úr þessu sé ekkert að vanbúnaði að afgreiða slíkt mál í allsherjar- og menntamálanefnd þingsins.

Fyrst ég hef nú hæstv. ráðherra til svara er kannski ekki úr vegi að spyrja hana í síðari spurningu minni um það mál sem bar hér fyrr á góma, sem er lögregluembættið á Höfn í Hornafirði og þær breytingar sem voru fyrirhugaðar um að það ætti að falla undir Suðurland en var breytt nýverið eins og frægt er. Hyggst hæstv. ráðherra endurskoða þá ákvörðun? Telur hún koma til álita að fylgt verði fyrri stefnu og embættið látið tilheyra Suðurlandi eins og gert var ráð fyrir í fjárlagavinnunni?