144. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[11:55]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Ég hef verulegar áhyggjur af matarskattinum sem hér er verið að greiða atkvæði um. Ég hef áhyggjur af hækkun á bókaskatti og því að flækja enn frekar möguleika á að geta gefið út vandaðar bækur hérlendis. Ég hef áhyggjur af skatti á tónlist. Þær greinar, tónlist, myndlist og sér í lagi bókaútgáfa, eiga verulega undir högg að sækja út af breyttu neyslumynstri á menningu. Ég er alfarið á móti því að það eigi að setja svona miklar aukaálögur á mat. Það er nokkuð sem fólk getur ekki sleppt. Það er hægt að kaupa sér notaðan ísskáp en það er ekki hægt að sleppa því að fá sér máltíð á hverjum degi.