144. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[12:12]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég kem hérna til að undirstrika gleði þingflokks Bjartrar framtíðar með þetta. Þetta er ánægjulegt, það er verið að lækka efra þrep virðisaukaskatts, það var orðið allt of hátt, þurfti að hækka það út af ömurlegum atburðum í efnahagslífi Íslendinga. Ég vil líka nota tækifærið og gera athugasemdir við þann málflutning að lækkun á ísskápum og ýmsum vörum sem lækka með þessu í verði, og líka með afnámi vörugjalda, sé sambærileg við mat. Ég held að allt önnur sjónarmið þurfi að gilda þegar við fjöllum um mat og virðisaukaskatt. (Gripið fram í: Föt.) Það hefði verið skynsamlegt, hv. þingmaður, að taka fötin niður í neðra þrepið, það hefði mögulega verið góð mótvægisaðgerð gagnvart hækkun á mat. Almennilegra mótvægisaðgerða við hækkun á matvælum gætir ekki, en þetta er gleðiefni.