144. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[12:13]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Nú greiðum við atkvæði um skattahækkunina miklu. Allar heimsins lækkanir á tómatsósu, flatskjám og ísskápum duga ekki til að vega upp á móti þeirri hækkun sem hér er verið að lögleiða á nauðsynjum. (Gripið fram í.) Afleiðingin verður sú að þeim mun hollari sem matvælin eru, þeim mun dýrari verða þau. Eina leiðin til þess að sleppa við skattahækkunarklór ríkisstjórnarinnar er að flytja neysluna yfir í meiri óhollustu. Áhrifin af þessari breytingu á menningarstarfsemi, og þá sérstaklega bókaútgáfu, hafa ekkert verið rannsökuð. Sú staða sem kynnt var fyrir efnahags- og viðskiptanefnd um viðkvæma stöðu bókaútgáfu í landinu og erfiða samkeppnisstöðu hennar gagnvart öðrum miðlum á nýrri tækniöld kalla á það að miklu varlegar sé farið áður en ráðist er í breytingar af þessum toga. (Forseti hringir.) Við segjum nei við þessari breytingu.