144. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[12:15]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það var áhugavert að sjá hæstv. forsætisráðherra hlaupa beina leið út úr salnum þegar hv. þingmenn fóru að gera grein fyrir atkvæðum sínum um að hækka virðisaukaskatt á mat og bækur og tónlist. Þá mátti sjá hæstv. forsætisráðherra brenna út úr salnum. Ég mun segja nei við þessari tillögu því að ég styð það ekki að hækka álögur á almenning í landinu og ég styð það svo sannarlega ekki að hækka verð á bókum og tónlist. Ég vil nota tækifærið hér og vara hv. þingmenn við því að hér er búið að færa fram varnaðarorð sem byggja á gögnum og þau sýna að þar sem virðisaukaskattur hefur verið hækkaður til að mynda á bækur hefur bókaútgáfa dregist saman, bæði bókaútgáfa og bóksala. Ég trúi ekki öðru en að hæstv. menntamálaráðherra þyki það áhyggjuefni að á sama tíma og hann ferðast um landið og predikar aukið læsi sé hans eigin ríkisstjórn að grípa til aðgerða sem stríða beint gegn stefnumiðum hans. Hér er verið að taka mjög illa ígrundaða ákvörðun sem byggir ekki á neinum gögnum, (Forseti hringir.) allra síst um það sem varðar menninguna í þessari tillögu.