144. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[12:22]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Hér greiðum við atkvæði um hækkun á því tvennu sem hver maður þarf á að halda til þess að geta lifað þokkalegu lífi, fóðri fyrir anda og efni, mat og menningu. Með því að samþykkja þetta eru menn að greiða bylmingshögg bæði bókaútgáfu og tónlistarsköpun í landinu. Þó er alveg klárt að það sem við þurfum helst á að halda nú um stundir er einmitt að púkka undir stoðir þessa tvenns.

Í öðru lagi vil ég segja að það var, eins og hér hefur verið rakið, hæstv. forsætisráðherra sem hafði uppi svardaga og sagði að aldrei mundi Framsóknarflokkurinn standa að hækkun matarskattsins. Níu þingmenn Framsóknarflokksins stóðu uppi í fjölmiðlum og sögðu að fyrr mundu þeir dauðir liggja en að gera þetta. Samt sem áður sjáum við að þeir eru að samþykkja þetta í dag. Þetta er ástæðan fyrir því að Framsóknarflokkurinn liggur fleiðraður upp á herðablöð. Hann hefur sýnt það að honum er ekki treystandi.