144. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[12:25]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við höfum mikið rætt þessi mál undanfarna daga í tengslum við það frumvarp sem hér eru undir og fjárlagafrumvarpið. Hér er verið að falla frá hækkun til handa öryrkjum, það er verið að auka álögur á mat og auka álögur á bækur. Á hátíðarstundum er talað um vægi skapandi greina. Núna virðist það ekki eiga við. Það er líka verið að vega að menningunni, hinni íslensku þjóðmenningu, í gegnum Ríkisútvarpið. Alls staðar þar sem íslenskan er höfð í fyrirrúmi, þar sem menningin er höfði í fyrirrúmi, skal bæta í og láta borga meira. Það er ekki að ósekju að við höfum staðið hér, stjórnarandstaðan, og talað um þessa hluti. Það er verið að færa byrðarnar yfir á þá sem minna hafa. Það er ánægjulegt að sjá hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur sitja hjá við þessa afgreiðslu því að hún hefur talað mjög mikið fyrir hag heimilanna. En hún er sú eina sem virðist geta staðið (Forseti hringir.) í lappirnar gagnvart þessu.

Virðulegi forseti. Hér er ekki um neina einföldun að ræða á virðisaukaskattskerfinu (Forseti hringir.) heldur er verið að bæta í álögur á heimilin í landinu.