144. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[12:34]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það er sérstakt ánægjuefni að fá að taka þátt í atkvæðagreiðslu um að fella brott vörugjaldslögin um almenna vörugjaldið. Ég fagna því að það er töluvert breið samstaða um það í þingsal að stíga þetta skref. Það er ekki sjálfsagt. Vörugjöldin hafa skilað um 6 milljörðum á ári fyrir ríkissjóð og er þess vegna brottfall þeirra eitt lykilatriðið í þeim jákvæðu áhrifum af breytingunum í heild sinni sem við höfum hér tekið til umfjöllunar í dag. Það er einfaldlega rangt sem haldið er fram í umræðunni, að heildaráhrifin verði til þess að þrengja að einhverjum Íslendingum vegna þess að heildaráhrifin verða til þess að auka kaupmátt allra tekjutíunda. Lykilatriðið í því er að fella á brott vörugjöldin, um það bil helmingur þeirra er sykurskattur sem er ómarkviss leið, ekkert annað en matarskattur á heimilin sem hefur ekki skilað þessum yfirlýsta tilgangi í lýðheilsulegum efnum. Hér er stigið mikið framfaraskref, (Forseti hringir.) mikil einföldun á kerfinu, um 800 vöruflokkar verða lausir við vörugjöld.