144. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[12:37]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við þingmenn Vinstri grænna sitjum hjá við þessa breytingu af þeirri meginástæðu að í henni felst afnám sykurskattsins. Það er til marks um það að mér hefur ekki þótt meiri hlutinn reiðubúinn að hlusta á gögn og rannsóknir við ákvarðanatöku sína í þessum málum. Nú höfum við fyrir því ítarlegar rannsóknir sem sýna að skattlagning á sykur er líklega áhrifamesta leiðin til þess að koma í veg fyrir lífsstílssjúkdóma tengda sykuráti. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur bent á að sykurát er líklega einn stærsti orsakavaldur lífsstílssjúkdóma sem við erum að horfa framan í á næstu árum og áratugum. Hæstv. ríkisstjórn hefur ekki sýnt fram á neinar leiðir til þess að bregðast við þessum vaxandi kostnaði heilbrigðiskerfisins, hún hefur ekki sýnt fram á neina leið til þess að bregðast við því að yngstu kynslóðir þessa lands borða 100 kíló af sykri á ári sem er tvöföldun á því sem eldri kynslóðir borða og þykir mörgum nóg um að borða 50 kíló af sykri á ári. (Forseti hringir.) Hér er stefnt í að auka sykurátið. Þess vegna sitjum við hjá, því að við teljum þessa breytingu ekki nægilega ígrundaða.