144. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[12:43]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Hv. þm. Pétur H. Blöndal ætti að vita eftir langa veru sína á þingi að ef menn lækka skatta án þess að gera ráðstafanir til að draga úr kostnaði eða útgjöldum ríkisins á móti borgar einhver annar þann skatt einhvers staðar annars staðar í staðinn. (Gripið fram í.) Það er nákvæmlega það sem er að gerast hér, í staðinn fyrir að borga skatt af sykruðum vörum, gosdrykkjum og sælgæti, þá eiga menn að borga hærri skatt af mat, af grænmeti, mjólk, fiski, kjöti. Snilldin er nú bara þessi, hv. þingmaður, gleðin er svona beiskjublandin. Ef menn þora að horfast í augu við sínar eigin gerðir, það er enginn skattur að lækka hér. Það er verið að færa til skattbyrði, það er verið að taka skatt af einni vöru og færa yfir á aðra. Það er það sem verið er að gera. Það er ömurlegt að hlusta á þennan málflutning hér. Lásu menn til dæmis ekki, hv. þingmenn, umsögn landlæknis og Lýðheilsustöðvar (PHB: Jú.) sem skoraði á Alþingi að gera þetta ekki? Skoraði á Alþingi að standa ekki þannig að breytingum í skattamálum (Gripið fram í.) að hollustuvörur (Forseti hringir.) hækkuðu í verði og sykur og gosdrykkir lækkuðu. Það er meiri reisnin yfir þessu.