144. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[12:56]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Talsmönnum ríkisstjórnarinnar er tíðrætt um að ríkisstjórnin sé að lækka álögur á almenning og þar fram eftir götunum, en þetta frumvarp er einhvern veginn alltaf skilið út undan í þeirri umræðu. Við erum hvött til að líta á þessi mál í heild sinni, en eigum við ekki að hafa þetta frumvarp líka með?

Hér er verið að seilast í vasa almennings og atvinnulífsins eftir alls konar flóknum leiðum. Þetta er frumvarp til laga um reddingar í ríkisfjármálum, frumvarp til laga um svik ríkisins á gerðum samningum. Hér er verið að seilast í alls konar markaða tekjustofna í tryggingagjaldinu algjörlega án samráðs. Það eru alvarleg tíðindi í frumvarpinu sem fela í sér mikla stefnubreytingu undir alls konar flóknum lagalegum hugtökum.

Svo er ein stór ósögð saga í þessu máli sem ég ætla að segja núna. Tryggingagjaldið hækkaði gríðarlega með auknu atvinnuleysi eftir hrun. Maður hefði haldið að þeir flokkar sem tala mikið um atvinnulífið mundu lækka tryggingagjaldið (Forseti hringir.) þegar atvinnuleysið fór niður. Nei. (Forseti hringir.) Hækkunin stendur enn. Þessi hluti (Forseti hringir.) fer bara beint inn í ríkissjóð. (Forseti hringir.) Hér mun ríkið taka á (Forseti hringir.) hverju ári (Forseti hringir.) um 20 milljarða af atvinnulífinu.