144. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[12:59]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þetta frumvarp er ekki eins ánægjulegt og það síðasta sem við ræddum áðan. Hér er tekið mið af því að ríkissjóður stendur ekkert sérlega vel enda sáum við það þegar við greiddum atkvæði um það að hann ætti að greiða 85 milljarða í vexti, sem þýðir að skuldsetningin er orðin allt of mikil.

Ég hefði gjarnan viljað sjá tryggingagjaldið lækkað. Það gengur bara ekki, það kostar svo mikið. Það sem verið er að gera mjög víða er að finna hvar hægt sé að ná niðurstöðu, t.d. gagnvart aðilum vinnumarkaðarins, með einhverjum hætti en samt þannig að ríkissjóður sé ekki lestaður um of.

Ég vil benda á eitt sem verður ánægjulegt. Í nefndinni sem fær þetta mál milli 2. og 3. umr. verður væntanlega lagt til og samþykkt að rafbílar verði áfram undanþegnir gjöldum af því við viljum stuðla að þeirri þróun.